Svakalegur nagli úr Eystri!

Aðalheiður Ormars, með 100 cm hæng úr Eystri Rangá um helgina, vigtaði ríflega 10 kíló, eða yfir 20 pund. Svaðalegur þykkur! Mynd Guðmundur Atli Ásgeirsson.

Nú raðast þeir upp þeir stóru og er það vel eftir erfiða byrjun í mörgum af laxveiðiám landsins. Umræddir erfiðleikar eru víða enn, enda kom bara ein demba sem hressti allt við, en síðan er allt dottið niður aftur. En í Eystri Rangá er nóg vatn og líka nóg af laxi skv síðustu fréttu,. 10 stk á átta stangir í morgun og um helgina algjör tröllafiskur!

Það var Aðalheiður Ormars, eiginkona Guðmundar Atla Ásgeirssonar sem sér um sölu veiðileyfa í ánni í júní, sem veiddi laxinn. Hann var 100 cm og nokkuð vel yfir 10 kílóum eða 20 pundunum  og skyldi enginn undra þegar myndin er skoðuð. Hrikalega þykkur. Sjálf sagði Aðalheiður að þetta yrði varla toppað á ferlinum. Annars er Eystri Rangá búin að hasla sér völl sem ein helsta stórlaxaá landsins, hún byggir á gönguseiðasleppingum , sem hafa farið vaxandi síðustu ár og hefur sérstök áhersla verið lögð á því að para saman stórlaxa og hafa einmitt júnílaxar verið teknir í kistur til að halda utanum verkefnið. Sem hefur tekist einstaklega vel.