Stærsti lax sumarsins til þessa!

Andri Rafn Helgason með stórlaxinn á bökkum Tjarnarhyls í Eystri Rangá.

Eystri Rangá hefur verið að skila sínu frá opnun, veiði verið góð og lax víða. Á þessum tíma eru lang flestir laxarnir í ánni tveggja ára úr sjú og það slæðast stundum mikil tröll með. Eins og um helgina þegar stærsti lax sumarsins, þ.e.a.s. sá stærsti sem við höfum frétt af var dreginn á land, 102 cm hængur og Maríulax í þokkabót. Meterslaxinn loksins kominn á land.

Það var Andri Rafn Helgason sem veiddi laxinn í Tjarnarhyl og tók fiskurinn fluguna Metallicu. Andri var þarna með félaga sínum Árna Kristni Skúlasyni og lentu þeir í hörkuveiði, lödnuðu átta löxum á stuttum tíma og voru flestir rígvænir, m.a. einn vel yfir 90 cm.

Við þetta má bæta að helgina veiddist einnig lax í Blöndu með þeirri nauðasjaldgæfu mælingu 99,5 cm. Slíkir fiskar hafa vart sést síðan að menn hættu að drepa risana til að hengja þá á vigt, tóku þess í stað upp sentimetramælingar í staðinn. Samkvæmt þekktum kvarða þarf lax að uppfylla 100 sentimetra til að uppfylla kröfur og skilyrði um að vera 10 kg, eða 20 pund. Síðan hafa 99 cm laxar nánast þurrkast út, hvað þá 99,5 cm. En það er augljóslega lengi von á einum.