Eitthvað hefur verið af stórlaxi í ánum í sumar.

Það er haustlegt víðar en úti í veðrinu þessa daganna, það er líka haustlegt á lista angling.is sem birti vikutölur sínar í morgun. Við ætlum að renna yfir lokatölur þær sem eru staðfestar og kannski tína til eitt og annað athyglisvert. Þetta ætlar að verða skárra en í fyrra, en talsverð vonbrigði eru þó með heildarmyndina.

Eystri Rangá er sem fyrr lang efst með 8130 laxa, en vikan gaf aðeins 114 fiska. Áin var þar með komin 5082 löxum fram úr lokatölu sinni í fyrra.

Selá endaði með 1258 laxa sem er ívið minna en í fyrra. Flott sumar þó þar á ferð og nóg af laxi.

Haffjarðará endaði með 1126 laxa sem er fín útkoma og 475 löxum meira en í hörmungunum í fyrra.

Lokatölur í Hofsá voru 1017 laxar og áin fór í fjögurra stafa tölu í fyrsta skipti síðan 2013. Eins og í Selá, þá var nóg af laxi í ánni.

Norðurá, hvað skal segja, að hún nái ekki þúsund löxum er náttúrulega ekki í lagi. En á sama tíma gaf hún 422 löxum meiri afla en í fyrra og endaði með 979 laxa.

Laxá á Ásum endaði með 675 laxa sem er afturför frá síðasta sumri, 132 löxum minna.

Elliðaárnar enduðu með 565 laxa sem er 28 löxum meira en í fyrra. Töldu sérfræðingar að mun meira hafi gengið af laxi en í fyrra þó að litlu muni á heildarveiðinni.

Hítará var svona eins og Norðurá, alls ekki með sérstaka tölu miðað hvað þar hefur stundum gefið, með alls 503 laxa, en á hinn bóginn er það 299 löxum meira en í fyrra.

Laxá í Aðaldal er eiginlega sér kapítuli, hún endaði með 382 laxa og hefur verið á krappri niðurleið síðustu sumrin. Veiðin í sumar er 119 löxum inna en í fyrra. Það eru komin ansi mörg ár síðan að öllu agni nema flugu var úthýst úr ánni og mönnum gert að sleppa öllum laxi. Ekki hefur það orðið til að bjarga neinu, augljóslega, og menn hljóta að vera að klóra sig í hausunum yfir því hvað hægt sé að gera fyrir ána, ef nokkuð.

Skjálfandafljót endaði með 361 lax sem er mikið til endurtekning á síðasta sumri, þó 31 laxi betra.

Loks nefnum við Flóku sem endaði með 222 laxa og þykir ekki merkilegt á þeim bæ. Þetta er 11 löxum minna en í fyrra, kannski ekki marktækt en róleg var Flókan.

Þá viljum við gjarnan nefna til Miðfjarðará og Fnjóská. Sú fyrrnefnda hefur haldið merkilega góðum „standard“ í sumar miðað við hversu slakar flestar ár norðan heiða hafa verið. Nýjasta talan úr ánni er 1705 laxar, sem er 105 löxum meira en í fyrra. Og Fnjóská, sem verið hefur í miklum öldudal síðustu árin. Hún var komin með 309 laxa á angling.is sem er 138 löxum meira en í fyrra. Fnjóská hefur verið á köflum bara nokkuð lífleg og bleikju og sjóbirtingsveiði lífleg að auki, samanlögð tala á silungi úr ánni er svipuð laxatölunni