Flottur gangur í Heiðarvatni

Það veiðast mjög vænar bleikjur í Heiðarvatni, þessar eru 45 og 47 cm.

Vötnin eru í fullum gangi þessa daganna. Þau fóru snemma í gang útaf góðu árferði og víða um land eru veiðimenn að gera góða hluti í vötnum landsins. Eitt af þeim vötnum er Heiðarvatn í Heiðardal, ofan Mýrdals. VoV leit þar við í vikunni og ekki er ofsögum sagt að þangað er gott að koma.

Þarna eru líka rígvænir urriðar, þessi er 52 cm. Mynd -gg.

Heiðarvatn er eflaust með betri veiðvötnum landsins, ekki nóg með að vatnið sé í fallegu umhverfi og er sneisafullt af fiski, heldur er fiskur þar af góðri stærð miðað við það sem gengur og gerist í stöðuvötnum. Þar er bleikja sem er yfirleitt 35 til 45 cm löng og stærri innanum. Þar er einnig urriði sem er allt frá því að vera smælki upp í tröll í tveggja stafa tölum í vigt. Sjóbirtingur er þar einnig á vorin og oftast vel fram í jú´lí og síðan aftur síðsumars. Og að endingu setja menn af og til í lax í vatninu, enda á hann þangað greiða leið um Kerlingardalsá og Vatnsá, en sú síðarnefnda er þekkt laxveiðiá.

VoV leit þarna við í vikunni. Umsjónarmaðurinn Ásgeir Arnar Ásgeirsson hafði sagt okkur að veiði hefði verið afar lífleg í vor og byrjun sumars og kom það á daginn þann stutta tíma sem við stöldruðum við. Flott veiði, mest bleikja upp í 47 cm en einnig urriðar upp íu 52 cm. Ekki flókið, PT, Peacock og Krókur. Flotlínur, langur taumur og frekar hratt innhal. Einn mikill plús við Heiðarvatn, utan hvað veiðin er lífleg, er að veiðihús fylgir silungsveiðileyfum fram til 20.júlí þegar laxveiðin hefst.