Góðgerðar Zeldan
2019 góðgerðar Zeldan.

Þau veiðihjón Kjartan Antonsson og Eydís Gréta Guðbrandsdóttir eru eigendur og framleiðendur þeirrar gjöfulu flugu Zeldunnar sem hefur margsannað sig. Kjartan hannaði þessa flugu á sínum tíma og er yfirhnýtari, en saman selja þau. Zeldan er nú til í ýmsum tilbrigðum. Í fyrra tengdu þau fluguna góðgerðarmálum og gera það aftur á þessu ári.

Í fyrra datt þeim í hug að hnýta 100 eintök af nýrri Zeldu og nefna hana góðgerðar Zelduna 2018. Ákveðið var að gefa samtökunum Krafti sjóðinn sem safnaðist og auðvitað vonuðu þau að flugurnar 100 myndu seljast upp, en krónuverð þeirra var 2000 stykkið, sem sagt 200þúsund króna styrkur ef allt færi á besta veg. Í færslu sem Kjartan hefur sett á FB síðu Zeldunnar segir m.a.:

Kjartan Antonsson.
Kjartan Antonsson höfundur Zeldunnar sýnir gjafabréfið til Krafts.

„Það gleður okkur að segja frá því að við erum búin að afhenda styrkinn frá ykkur kæru veiðimenn/konur sem við öll gáfum Krafti sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Þegar við fengum hugmyndina að góðgerðar Zeldunni í fyrravor og ýttum hugmyndinni úr vör hér á síðunni, þá segjum við það alveg frá hjartanu að okkur hlýnaði um hjartarætur vegna viðbragða ykkar. Það segir sig sjálft að án ykkar hefði þessi góðgerðarstyrkur aldrei orðið að veruleika.“

Eydís Gréta
Eydís Gréta á góðri stundu við Sogið.

Síðan heldur Kjartan áfram og lýsir yfir nýju góðgerðarátaki með 2019 útgáfu af góðgerðar Zeldunni. Kjartan segir:  „Auðvitað verður góðgerðar Zeldan 2019 hnýtt og verður sami háttur hafður á, 100 eintök verða búin til og verða þau einu eintökin sem gerð verða þannig hún verður einstök á sinn hátt. Að sjálfsögðu er búið að hanna góðgerðar Zelduna 2019 og kynnum við hana einnig í þessu innleggi (sjá mynd). Góðgerðar Zeldan 2019 mun kosta það sama og systir hennar frá í fyrra eða kr.2.000 og mun allur ágóði renna óskiptur til góðs málefnis. Kjartan Antonsson hönnuður Zeldunnar hnýtir að sjálfsögðu öll eintökin og gefur efni og vinnu, en þeir sem styrkja sjá um stærsta hlutann og gera þetta að veruleika.“

Síðan greinir Kjartan frá örlítið breyttu sölufyrirkomulagi sem miðar að því að geta veitt næsta styrk fyrr en núna, helst ekki seinna en næsta haust, en um það geta lesendur lesið á FB síðu Zeldunnar, gott að slá bara inn leitarorðinu Zeldan.