Brennan, Ingólfur Ásgeirsson
Ingólfur Ásgeirsson með glæsilega hrygnu veidda á Brennunni í morgun. Lax var að sýna sig um allt svæðið!

Leigutakar Brennu voru að tékka á svæðinu í morgun og voru ekki lengi að setja í fallegan lax og landa honum. Að sögn var mikið líf á svæðinu, en Brennan er þar sem Þverá/Kjarrá sameinast Hvítá. Frábær veiðistaður.

Ingólfur Ásgeirsson, einn leigutaka Brennu sagði svo frá í skeyti á FB: „Lax stökkvandi viða og greinilega góðar göngur i þverà Kjarrá.“ Við það má bæta, að ábúandinn á Hamraendum, eigandi Brennutanga, landaði þar bæði 104 cm laxi og ca 15 punda hrygnu daganna á undan opnuninni. Hann hefur löngum haft þann háttinn á að kíkja í ána rétt á undan opnun til að athuga hvort að fiskur sé kominn. Í fyrra veiddi hann fyrsta opinbera lax sumarsins, einmitt í viðlíkri vísindaveiðiferð.

Nú veit enginn hvað verður, búið var að spá slökum stórlaxagöngum, en svo virðist að hann sé að ganga snemma enn og aftur, hversu mikið verður af honum veit samt enginn enn. En þessar fréttir í byrjun sumars gefa öllum von um að sumarið í heild sinni verði geggjað.