Katka með risaeðluna sína....90plús....amk 20 pund!

Katka Svargrova er kornung Tékknesk kona sem starfar sem veiðileiðsögumaður í Laxá í Kjós og Brynjudalsá. Hún er snillingur með flugustöngina og hefur sérstakt lag á að veiða við erfiðar aðstæður með andstreymisveiði, ekki hefur veitt af í Kjósinni í sumar. En nú fyrir skemmstu skrapp hún í Þingvallavatn til að elta drauminn, 90 cm plús, 20 punda urriðann….og hvað gerðist?

Hún fór með Cezary sem er frægur fyrir að þekkja Þjóðgarðssvæðið. Hefur mokað þar upp urriða í allt sumar og sýnt fram á að það þarf ekki að fara á ION svæðin syðst í vatninu til að veiða vel. Enda fer mest af fiskinum um haust upp í Öxará. Gefum Kötku orðið:

„Við fórum fyrst og veiddum bæði í björtu og myrkri en fengum ekki högg. Við gátum reyndar ekki veitt langt inn á kvöldið vegna þess að ég átti að leiðsegja daginn eftir. En við ákváðum að fara aftur. Cezary kom um klukkan hálf tíu og við ókum í Þjóðgarðinn og vorum ekki byrjuð að veiða fyrr en um klukkan hálf ellefu. Veðrið var ömurlegt, lægð að ganga yfir og rigning. Cezary var samt á því að þetta yrði fínt, við myndum fá fiska og um miðnætti breyttist veðrið til hins betra. Kannski fæ ég 90 cm hænginn minn í kvöld hugsaði ég. Um miðnætti, við veðrabreytinguna, fóru þeir að taka. Ég setti í einn stóran, glímdi við hann, en missti hann við háfinn, 85-90 cm hængur. Næstu þrjá tímana héldum við áfram og lönduðum átta urriðum, 75 til 85 cm fiskum. Ég var rosalega sátt, en samt svolítið leið því að draumurinn hafði ekki ræst!

Svo var komið mál að hætta, langt liðið á nóttina. Við vorum á rölti að bílnum þegar Cezary vildi endilega að ég tæki nokkur köst. Ég var nú farin að hugsa um að koma mér heim í Kjósina, að sofa eitthvað vegna þess að ég átti að leiðsegja frá hádegi daginn eftir. En Cezary lét mig ekki friði þannig að ég reif út línu og kastaði. Og í fyrsta kastinu fékk ég þessa líka svakalegu töku á Parrot flugu sem Cezary hefur hannað, það var svo allt brjálað og allar væntingar mínar upp fylltar….en svo losnaði úr honum, hann slapp úr höndunum á mér og synti silalega út. Ég hugsaði ekkert, stökk útí og náði taki á honum. Fór alveg á kaf og hélt honum spriklandi, það kom ekki annað til greina en að mæla hann og mynda. Það gekk eftir, draumurinn varð að veruleika.“