Ytri Rangá
Fallegir smálaxar veiddir í Ytri Rangá 4.október. Lax enn að ganga sem sagt. Mynd Ásgeir Ólafsson.

Vikutölurnar komu og fóru s.l. miðvikudag og héðan af er spurningin eingöngu hvor verður ofar, Ytri Rangá eða Eystri. Eystri hefur með miklum viðsnúningi frá í fyrra verið efst nær allt sumarið, en Ytri, þrátt fyrir mun lakari veiði en í fyrra, verið með nokkuð góðan endasprett og er komin yfir þó að munurinn sé nánast enginn. Vikutölurnar endurspegla hins vegar slök skilyrði.

Ytri Rangá er sem sagt komin yfir Eystri Rangá, þann 3.10 voru komnir 3848 laxar á land eftir 106 laxa viku. Á sama tíma voru komnir 3840 stykki úr Eystri Rangá eftir 40 laxa viku. Skilyrðin skína þarna í gegn, því að mikið er af laxi í báðum ám og ofan á alla svartlegnu laxana hefur borið á nýjum og nýlegtum löxum í báðum ám, líkt og í Vopnafirði, göngur alls ekki úr sér gengnar og er gaman fyrir haustveiðimenn að geta átt von á björtum fiskum, ekki síður en svörtu pokunum.

Síðan er vert að geta Affallsins í Landeyjum og Þverár í Fljótshlíð í þessum pistli. Vikutalan í Affalli bar líka keim af illum skilyrðum, aðeins 23 laxar, en með þeirri tölu var áin komin í 893 laxa sem er lang besta veiðin síðan að áin náði metveiði sumarið 2010, en þá veiddist 1021 lax. Þverá gæti verið með met, en þann 3.10 voru komnir 467 laxar úr ánni eftir aðeins fimm laxa vikuveiði, en þessi heildartala er mun hærri heldur en nokkuð sem angling.is hefur skráð á ána síðan 2010. Met? Það kemur í ljós.

Í öllum nefndum ám er veiðin byggð á gönguseiðasleppingum og því er veitt í þeim langt fram í október. Þessar tölur eiga því eftir að breytast áður en yfir lýkur.