Veiði hófst í Hrútafjarðará í morgun og voru menn sáttir að lokinni fyrstu vakt. Lax var víða og nokkrir tóku í leiðindaveðri. Þremur var landað og nokkrir sluppu. Bara fínt.

Nils Folmer Jörgensen var að opna með leigutakanum Þresti Elliðasyni og félögunum. Hann sendi okkur skeyti: „Við lönduðum þremur löxum á fyrstu vakt, veiddum aðeins þrjá tíma, frá níu til tólf. Það var hávaðarok eins og oftast þarna. Áin er samt í flottu vatni og lítur glæsilega út. Ég setti í lax í þriðja kasti á Autumn Hooker, enda leið manni eins og það væri haust, þetta var í Réttarstreng og laxinn 81 cm og annar félagi í ferðinni var með 72 cm hrygnu í Hamarshyl á rauða Frances númer 14. Þröstur fékk sjálfur fallega hrygnu í Síríus á Sunray Shadow. Ég missti einn á Haug á hitsi, en fleiri löxum var ekki landað. Laxarnir voru allir bjartir, en enginn með lús,“