Birgir Steingrímsson, Laxá í Aðaldal
Gamall Laxárhundur, Birgir Steingrímsson með 97 cm hæng af Hólmatagli í Laxá í Aðaldal um helgina.

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur hjá Hafró(Veiðimálastofnun) telur að smálaxaþurrð Norðanlands- og Austan stafi líklega af litlum hrygningarstofni sumarið 2012 þegar afar lítið var af laxi í ám í þessum landshlutum. 2012 var fyrra sumarið af tveimur, hitt var 2014, þegar laxveiði var mjög slök heilt yfir landið. Þetta er góð kenning, en einn okkar helstu tíðindamanna norðan heiða, Pétur Pétursson, telur að bati sé í sjónmáli.

Stangaveiðimenn muna eftir „ruglinu“ sem sumir kölluðu það þegar komu tvö einstaklega léleg sumur með flottum veiðisumrum á milli í kringum slöku sumrin 2012 og 2014.  Auk þess hversu slök þau sumur voru, þá gekk megnið af þeim litla laxi sem á annað borð skilaði sér svo snemma að það var slokknað á öllu um miðjan júlí. En allt um það.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að flestar ár á Norður- og Austurlandi eru með dræma veiði. Eina og eina undantekningu er að finna, Selá er t.d. fín, Hofsá í bata og það leit vel út með Jöklu þangað til að yfirfall tók með sér drjúgan hluta af veiðisvæðinu. Hliðarárnar, vatnamótin og Fögruhlíðará hafa hins vegar tikkað vel, en það er tap í Jöklu sjálfri…

Laxá í Aðaldal, Nils Folmer
Spaðinn á einum af stærstu löxum sumarsins, 112 cm tröll af Nesveiðunum. Mynd Nils Folmer.

Og þá að Pétri sem hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli og verið hluti af tifandi hjarta Norðurlandsáa um árabil. Hann sagði í dag: „Þetta er alls ekki nýtt undir sólinni. Vissulega hefur þetta verið rólegt á stundum, en haustbragurinn er að byrja að koma inn sem lýsir sér í því að það koma skot, átta einn morgun, sjö í Hnausa á einum morgni….svoleiðis og núna fara laxar,sérstaklega stórir, að skríða úr bælum þar sem ekki hefur verið hægt að ná til þeirra, það er komið að því….finna sér maka og helga sér óðal. Og verja það. Haustveiðin gæti orðið ágæt, hún er það oft þó að ekki sé sérlega mikið af laxi í ánni!“

Pétur er einnig með Gljúfurá í Húnavatnssýslu á sínum snærum og hefur hún verið gæluverkefni. Á sem að illa hafði verið farið með en Pétur og félagar hafa tekið að sér sem langtíma verkefni. „Ég vonaðist ekki eftir bata fyrr en í sumar og ég fékk hann, það var talsverð ganga í júlí og nokkur holl veiddu vel. Hins vegar færði laxinn sig síðan upp og þangað fara færri og þar er áin ekki eins vel kortlögð. Þetta er ekki stór og mikil á og göngur ekki stórar þannig séð, þannig að laxinn á það til að hverfa. Ef einhver nennir að ganga, þá finnur hann laxinn og fær ævintýri. Hins vegar, fyrir bæði Gljúfurá og Vatnsdalsá, þá gekk vel út af seiðum í vor og sumar við góð skilyrði þannig að það er ekki ástæða til annars en að vera með bjartsýni fyrir næstu sumur og það verður að segjast eins og er, að okkar upplifun hér í Vatnsdal er að eftir tvö slök sumur koma oft 3-4 góð í kjölfarið….“