Hér kominn risinn úr Tungufljóti 100,5 cm. Myndin erfengin af mbl.is og þar er kreditið "Aðsend". Við getum því ekki gefið myndinni nafn.

Enn er ekkert lát á risafiskasögum austan úr Vestur Skaftafellssýslu og ljóst að menn eru ekki í minni sjens þar að setja í yfirþunga ísaldarurriða þar heldur en í Þingvallavatni. Einn sá stærsti í áraraðir var dreginn úr Tungufljóti og enn einn yfir 90 cm úr Geirlandsá. Þeir fylla brátt tuginn.

Júlíus Metúsalem Jónsson með 84 cm hrygnu úr Geirlandsá

Mbl.is greindi frá 100,5 cm hæng sem veiddist í Tungufljóti í vikunni. Sá var 100,5 cm og sá stærsti sem komið hefur á land í vor, til þessa átti toppinn 97 cm stykki úr Geirlandsá. Veiðimaður skv mbl.is var Brynjar Vignir Sigurjónsson, 17 ára dellustrákur og fiskurinn á í fyrsta kasti. Í mbl.is stendur að fiskurinn hafi veiðst í Fagrabakka. Áralöng reynsla VoV af Tungufljóti þekkir ekki Fagrabakka, en við teljum líklegt að þetta sé Flögubakki, sem er veiðistaður sem gefur stórfelldlega á vorin. Flögubakki tekur við af Syðri Hólma sem er hinn stóri vorstaðurinn. Segja má að þeir tveir séu eitt samfellt veiðisvæði. Nokkur hundruð metra langt.

Þó að birtingurinn hans Brynjars sé sá stærsti í vor og algerlega geggjað eintak af gömlum sjóbirtingi sem hefur notið þess að vera ekki drepinn einhvern tíman á lífsleiðinni, þá eru dæmi um enn stærri fiska síðustu árin. Við ætlum ekki í djúpa rannsóknarvinnu akkúrat núna, en rifjum þó upp birting sem að Haraldur Eiríksson veiddi í Tungulæk fyrir all nokkrum árum. Gætu verið tíu ár eða mögulega meira. Hann var með óþyngda Black Ghost straumflugu og fékk svona „festu“ eins og Brynjar. Þetta reyndist vera 103 cm hrygna sem því miður gleypti fluguna ofan í tálkn og blæddi út. Sorglegt, en hún var orðin gömul blessunin og búin að skila sínu og vel það á langri ævi.

Og burtséð frá risanum í Tungufljóti, nýleg tíðindi úr Geirlandsá sýna að þetta heldur bara áfram og áfram. Á FB síðu SVFK er greint frá skilaboðum frá Júlíusi Metúsalem Jónssyni sem er núna fyrir austan. Búnir að setja í fullt af fiski og þeir stærstu yfir 80 cm. Hollið á undan, skv Júlíusi var með 69 landaða fiska, flesta stóra og þann stærsta 98 cm, sem er þá sá stærsti úr ánni í vor. Þeir eru nánast að fylla tuginn 90plús úr Geirlandsá í vor. Þetta vor….og þau síðustu, þetta hefur verið mikil tröllaveisla.