Veiði fór gríðarlega vel af stað á urriðasvæði Laxár í Mývatnssveit í morgun þrátt fyrir kulda og almenn leiðindi í veðrinu. En þegar fiskur er að taka þá verður mönnum ekkert kalt. Um hundrað urriðar, flestir vel vænir, voru dregnir á fyrstu vaktinni.

Innanum í aflanum voru fáeinar bleikjur, allar vænar líka og kom þessi góða veiði mönnum örlítið á óvart, því vetrarríki hefur ríkt á Norðausturlandi að undanförnu, fryst hefur á nóttum og jörð hvít eftir tíð él. Lofthiti var lítill í morgunsárið og fraus að sögn í lykkjum hjá sumum. En fiskur var við og vel heldinn, greinilega komið sumar ofan í ánni þó að það láti bíða eftir sér ofan vatns eins og sakir standa. Jón Helgi Björnsson á Laxamýri sagði í samtali í gær, að tíðin hefði verið svo góð í allt vor að ekki væri verjandi að kvarta undan smá kuldakasti nú.