Eldvatn, Hundavað, 69 cm geldfiskur, akfeitur.....myndgæðin skrifast á ömurlegt veður! Mynd gg.

VoV fór í sína árlegu mai-vísiteringu til Vestur Skaftafellssýslu. Við höfum farið ca viku af mai til að taka púlsinn, hvort að enn sé fiskur. Og það bregst aldrei, það er alltaf fiskur. Hér er önnur frétt af þremur, vísitering í Eldvatn.

Eldvatn
Landað í hyl 3 í Eldvatni, Ármann Höskuædsson með fagleg handtök. Mynd Jón Eyfjörð.

Fyrir þá sem hafa lesið fréttina hér að neðan um Tungufljót, þá gildir það sama er varðar Tungufljót, þ.e.a.s. veður var glatað í gær, vestan rok og stanslausir éljaklakkar, kolsvartir að lit og voðaveður þegar þeir gengu yfir. Stundum voru bara tíu mínútur á milli élja. Ekki gott. En VoV tekur hlutverk sitt alvarlega og við eyddum nokkrum klukkustundum í Eldvatn, enda frábær á og með þeim fallegri. Okkur reyndist mest vera af fiski þar neðarlega, ekki skrýtið, því nú er sá tími að fiskur þéttir sig neðarlega og býr sig undir að ganga til sjávar.

Sjóbirtingur
Einn nálgast landið, en hann gat verið slakur, fékk að synda aftur! Mynd Jón Eyfjörð.

Það er fallegur veiðistaður og auðveldur sem heitir 3 og þar fengum við strax einn. Fleiri eltu. Út af ósi Steinsmýrarvatna er fallegur 30-40 metra langur áll sem betra er að veiða frá austurlandinu, en útaf helv… rokinu óðum við nokkra tugi metra til að kasta frá vesturlandinu. Þarna fengum við þrjá, m.a. einn 70 cm og þarna var mikið af fiski. Kíktum aðeins ofar og þar var líka fiskur, t.d. í Hundavaði þar sem við lönduðum einum og fleiri eltu. Urðum ekki vör í Þórðarvörðu og hylurinn neðan við brú var líklegar, en þá var veðrið orðið þannig að vart var staðið í lappirnar.

Samkvæmt Jóni Hrafni Karlssyni leigutaka þá var vorveiðin komin í 100 fiska með framlagi okkar, það er bara fínt því að Eldvatn er kaldari á en flestar í nágrenninu og er yfirleitt sterkt í lok apríl og byrjun mai.