Nýjar vikutölur benda til eins og annars

Hrund Runólfsdóttir glaðbeitt með 96 cm hæng úr hylnum Gelli í Þverá í Borgarfirði.

Nýjar vikutölur litu dagsins ljós á angling.is í gærkvöldi. Af þeim eitt og annað ráða. T.d. að heldur er að vænkast hagur veiðimanna á vestanverðu landinu eftir demburnar, þótt að ástandið sé samt langt frá því að vera gott. En það er betra og það skiptir öllu. Athygli vekur hversu góður gangur er í Urriðafossi og Eystri Rangá.

En kíkjum á hæstu árnar. Í sumum ánum er um fyrstu vikuveiðitölu að ræða, en í öðrum tilvikum eru vikutölurnar orðnar allt að þrjár til fjórar. Við hverja á setjum við síðustu vikutölu og í svigunum koma 1-2 þær síðustu þar á undan, þannig geta lesendur séð hvort að það er stígandi, svipað gengi eða dalandi. Í tilviki Eystri Rangár er til dæmis eftirtektarvert að af 142 laxa viku, veiddust 50 laxar á þriðjudeginum einum.

Annað dæmi er t.d. dalandi heimtur á Brennutanga á sama tíma og Þverá/Kjarrá hressast, beint samhengi þar eftir að það fór að rigna. Uppsafnaður lax í Brennu hefur þá strax flutt sig ofar í kerfið.

Urriðafoss         427 – 108 (63 – 72)

Eystri Rangá     235 – 142 (63)

Blanda              135 – 25 (25 – 31)

Miðfjarðará        118 – 55 (39 – 24)

Brennan             107 – 93 (39 – 19)

Ytri Rangá           93 – 36 (fyrsta vikutala)

Þverá/Kjarrá        91 – 62 (17)

Haffjarðará           91 – 51 (fyrsta vikutalan)

Elliðaárnar            81 – 45 (fyrsta vikutalan)

Laxá í Aðaldal       70 – 26 (fyrsta vikutalan)

Grímsá                  66 – 35 (21)

Norðurá                 55 – 26 (18 – 4)

Víðidalsá                36 – 16 (fyrsta vikutalan)

Langá                     35 – 21 (12)

Flókadalsá              33 – 16 (fyrsta vikutalan)

Laxá í Kjós              25 – 19 (3)

Vatnsdalsá               21 – 8 (fyrsta vikutalan)

Neðar koma ýmis þekkt nöfn sem sumar hafa aðeins verið opnar í nokkra daga. Þar má nefna að einum laxi munar á Hofsá og Selá, 17 og 16, Hofsá á undan. Eins og lesendur muna e.t.v. þá byrjaði Selá mun betur og Hofsá beinlínis rólega. Síðan í opnun hefur Selá varla verið stunduð á meðan að göngur hafa greinilega glæðst í Hofsánni. En lesendur geta skoðað miklu meira á www.angling.is