Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Við ætlum ekkert að fullyrða fyrr en við höfum fengið svigrúm til að athuga, hvort að vikutalan úr Eystri Rangá er Íslandsmet fyrr og….nei, ekki síðar. Ekki hægt að tala svoleiðis, en vikutalan í Eystri er 1470 laxar.

Það hefur sem sagt verið mikil veiði í Eystri Rangá í sumar og líkur á að áin nái metveiði. Einar Lúðvíksson, sem um árabil sá um Eystri Rangá, öll hennar mál um árabil og pabbi hans Lúðvík Gissurarson þar á undan. VoV datt í hug að Einar hefði ekki fengið mikið kredit fyrir risaveiðina í sumar sem kunnugir hafa lýst sem „sturluð veiði“ og „teppalögð á“. VoV spurði Einar hvort að veiðin í sumar væri ekki góður vitnisburður um sleppingar hans síðustu tvö ár og Einar svaraði: „22.ágúst 2007 var Eystri í 3600 löxum en 22.ágúst í ár í 6200 löxum og miðað við blandað agn 2007 er þetta tvöföldun frá því 2007. Ytri var í 6000 löxum 20.ágúst 2008 þannig að þetta er alveg sama tala og þá. Þetta er nú meira en það, að tala bara um tvö sleppisumur, þetta er meira afrakstur 32 ára vinnu okkar pabba.

Já Eystri  stefnir í 10 til 15 þúsund laxa. Hefur verið að tvöfalda sig miðað við 2007 þegar hún endaði í 7500 löxum og er á svipuðu róli og Ytri 2008 þegar Ytri endaði í 14500 löxum. Affallið stefnir í 2 þúsund laxa,“ sagði Einar.