Út er komin bókin Undir sumarhimni – Sögur af veiðiskap. Þetta er veiðigjöfin í ár fyrir stangaveiðimenn, unnin af Sölva Birni Sigurðssyniu, sem áður hafði kveðið sér hljóðs með stórvirkinu um stangaveiði á Íslandi, tvö risabindi um söguna og veiðivötn hérlendis. Hér safnar hann saman sögum fjölmargra veiðimanna um eftirminnilegu daganna, hvort heldur allt gekk upp eða ekkert. Salka gefur út. Hér er stubbur úr bókinni, falleg veiðisaga:

Stundum, og í flestra tilviki á afmörkuðu tímabili í lífinu, er maður ungur og tilbúinn að elta hvers kyns tækifæri til gleði ef það er innan seilingar. Í tilviki veiðimanna er ómögulegt að kveikja í æskumanneskju þessa tilfinningu til ævintýris, þar sem fiskur liggur svangur í hyl, og gera svo ráð fyrir því að viðkomandi slökkvi um leið á skynjurunum og láti veiðimöguleikann sem vind um eyru þjóta. Tvítugur veiðimaður sem espast ekki upp í vissunni um fisk á afmörkuðum stað getur eins gleymt því að verða nokkru sinni alvöru veiðimaður. Hitt er svo líka að ef sögumaður í sveit ber slíka sögu á borð seint að kvöldi og segir að fiskarnir liggi í skammri göngufjarlægð í heimalæknum, og ætlast svo til þess að æskumanneskjan sem raunverulega er með veiðieðlið í sér geri ekki allt sem hún getur til að komast að bakkanum og veiða fiskinn, þá er um að ræða óbrúanlegt kynslóðabil, því ungi veiðimaðurinn mun alltaf læðast út og hafa til þess öll brögð um að færa fiskinn á land.
Ég skrifa þessi orð hér að ofan upp úr samtali við vin minn sem var tvítugur fyrir tuttugu og þremur árum og átti kærustu í grasgrænni sveit skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Á leið þangað frá Reykjavík lærði hann að keyra á áttatíu kílómetra hraða til að spara bensín og hefur síðan reynt að bæta þennan bensínsparnað upp með því að keyra áttatíu kílómetra daglega, innanbæjar og oftast sömu göturnar, eins og stórfiskur sem syndir alltaf sama hringinn í hyl sínum.
Hvað um það þá fréttir Steinar Bragi eitt kvöldið þarna fyrir austan að í fosshylnum í Geirlandsá liggi tveir laxar sem eru að búa sig undir niðurgöngu. Þetta var í mars og ástand laxanna ekki lengur slíkt að þeir séu veiddir til manneldis. Þetta eru magrir fiskar og þegar við svo er komið þá eru þeir í flestum tilvikum feigar skepnur, hvort sem einhver veiðir þá eða ekki. Allar líkur benda til þess að niðurgangan verði þeim um megn. Níu tíundu allra laxfiska sem ganga meðstreymis til sjávar láta líf sitt á niðurgöngunni. Þeir eru uppgefnir eftir níu mánaða föstu og hafa ekki lífsmagn til að lifa slíkt af.
Steinar Bragi, tvítugur í sveit með kærustu sinni þar eystra, varð hins vegar viðþolslaus er hann frétti af fiski þar við bæjarhólinn, sem hægt væri að fanga. Hann sannfærði bæði bóndann og alla nálæga um að eina vitið í stöðunni væri að fara að þessum hyl og skoða fiskana og sjá þá og virða þá fyrir sér vetrarþreytta og taka veiðistöng með. Allir sem reynt hafa mars á Íslandi vita hvernig sá mánuður er. Þetta er runa af köldustu vikum ársins og heilbrigðasta fólk þarf að hafa sig allt við til að láta eins og sumarið sé á næsta leyti. Marsmánuður hefur í rúmlega þúsund ára sögu þessarar þjóðar deytt flesta landsmenn. Eftir að við eignuðumst betri hús og fengum bensín til ferðast á milli landshluta er þetta ögn breytt. Inntak þessarar sögu er þó það að veiðimaður reis upp að vetri til og mátti einskis una nema að komast að hylnum þar sem tveir laxar lágu, og veiða þá.
Steinar hafði ekki kastað nema tvisvar í hylinn þegar hængurinn tók. Þetta var þung taka en hæg og viðspyrnan reyndist ekki sú sama og þegar sett er í sumarlax. Rimmunni lauk þannig að Steinar landaði laxinum og varð miður sín, enda elti hrygnan maka sinn allan tímann sem fiskurinn var á, nánast upp í land, og fór svo ein aftur ofan í hyl til að deyja. Þetta er sorgleg saga sem ég vona að færi ungum veiðimönnum sannfæringu um að það er ekki mikið sport að veiða niðurgöngulax. Hylur þessi í Geirlandsá er hins vegar þess virði að heimsækja. Jón Steingrímsson, prestur á Síðu, stakk eitt sinn ofan í hann höfði sínu til að stytta líf sitt, en hætti svo við í hálfu kafi og kom kaldur upp. Eftir þessa höfuðlausn var honum fært að stöðva rennsli Lakakgígahrauns við bæ sinn og kirkju árið 1783, og hafði þá ekki hugmynd um að sama sveit myndi kenna ungum drengi að keyra um þjóðveigi á skynsemishraða, og veiða niðurgöngulax aðeins einu sinni á ævinni. Slíka athöfn endurtekur maður nefnilega ekki. Steinar Bragi segir mér þó, þar sem ég sit við tölvuna og skrifa þetta, að líf hans sé tileinkað brennimerktri ást sem verður hvergi spegluð nema í bergvatnsá.