Simmsdagar haldnir í Veiðihorninu um helgina

Líf og fjör á Simms helgi í fyrra. Mynd ÓV.

„Við höfum haldið Simmsdaga á hverju ári í mörg ár,“ segir Ólafur Vigfússon annar eigenda Veiðihornsins og hann heldur áfram:  „Á Simmsdögum bjóðum við viðskiptavinum okkar að koma með gömlu Simmsvöðlurnar til okkar í skoðun og yfirhalningu en við gerum við frítt.

Ef bilanir eru þess eðlis að við ráðum ekki við viðgerðir sendum við vöðlurnar út á viðurkennt Gore-tex verkstæði í Noregi.  Allar vöðlur þurfa að vera hreinar og merktar.  Ef senda þarf vöðlur út til viðgerðar þarf kvittun að fylgja með.

Mörg undanfarin ár fengum við í heimsókn erlenda sérfræðinga í Gore-tex viðgerðum en vegna Covid var það ekki hægt í fyrra og verður ekki nú.  Þess í stað sjá sérfræðingarnir í Veiðihorninu um þessa þjónustu.

Gæði framleiðslunnar, Gore-tex filman og þessi eftirþjónusta setur Simms í algjöran sérflokk í vöðlum og veiðifatnaði. Um helgina hefjum við einnig dreifingu á nýja blaðinu okkar en þetta er tíundi árgangur.  Að þessu sinni sleppum við ártali á blaðinu en stefnum að því að verð haldist óbreytt fram á vorið 2022.

Blaðið er sérlega glæsilegt, smekkfullt af vönduðum veiðibúnaði og góðum ráðum til nýliða frá vel þekktum veiðimönnum.  Veiðiblað Veiðihornsins er 108 síður og dreift í 6.000 eintökum.“

Við finnum mikla eftirvæntingu eftir blaðinu að vanda enda er stemningin í veiðimannasamfélaginu góð.  Það varð algjör sprenging í sölu á veiðibúnaði í fyrra og það er búið að vera brjálað að gera hjá okkur síðan í mars.  Okkur sýnist allir ætla að veiða í sumar.