Gljúfurá í Húnavatnssýslu.
Alls staðar líklegir staðir. Myndir Einar Falur.

Fish Partner er í sviðsljósinu þessa daganna, við erum nýbúin að greina frá fluguveiði-akademíunni þeirra og nú bætist við að félagið hefur bætt athyglisverðu ársvæði við flóruna, Gljúfurá í Húnaþingi, svæði sem VoV þekkir mjög vel.

Hópið, Gljúfurá
58 cm bleikjutröll landað í ósi Gljúfurár við Hópið. Mynd -gg.

Leigutakar Vatnsdalsár eru leigutakar Gljúfurár og hafa verið í all nokkur ár. Áin var nokkuð spræk laxveiðiá á sínum tíma, en hrakaði, líklega vegna þess að ótæpilega var veitt úr henni. Stofn árinnar er ekki tröllvaxinn, en hún getur þó staðið undir kannski 150 löxum í góðu ári. Það er nú eitthvað. Síðustu sumur hafa þeir Pétur Pétursson og Björn Kristinn Rúnarsson, leigutakar Vatnsdalsár og Reykjadalsár í Reykjadal, verið með ána í nokkurs konar gjörgæslu. Lítið hefur verið veitt og fylgst á sama tíma vandlega með seiðabúskap. Sem hefur verið býsna góður síðustu 2-3 árin og menn bíða eftir góðum bata. En alltaf er það samt þannig að hafið ræður þannig að tvö síðustu sumur hefur verið smálaxaþurrð nyrðra og það hefur skilað sér í Gljúfurá eins og aðrar ár á landshlutanum. Menn gera sér þó góðar vonir með að frá og með næsta sumri fari alvöru bati að láta á sér kræla.

Gljúfurá er þriggja stanga á með ágætis húsi sem stendur örfáum hundruð metrum ofan við ósinn við Hópið. Oft er mjög góð bleikjuveiði í ósi árinnar og fyrir kemur að bleikjan kíki í neðstu hylji árinnar, þó er það upp og ofan, t.d. var einn hylur 100 metrum ofan við ósinn gersamlega pakkaður af bleikju í byrjun september 2017, en á sama tíma s.l. haust fannst ekki einu sinni síli í hylnum! Svona er þetta, en þeir sem hitta á bleikjuna fá veislu. Þá veiðast oft sjóbirtingar í ósnum og þeir geta verið vænir í bland.