Við erum enn að reyna að ná utanum hvernig byrjunin nú stenst samanburð við síðasta sumar. Það byrjaði býsna vel þá, en fjaraði svo út þannig að það er varla að marka ennþá fyrr en við sjáum hvaða kraftur verður í smálaxagöngum. En svona leit þetta allavega út fyrir næstum viku þegar angling.is birti vikutölurnar.

Nú fara smálaxagöngur að gera sig gildandi og þá kemur í ljós hvernig allt fer. Við höfum t.d. vitneskju um miklar göngur í Borgarfirði í stórstreymi helgarinnar, en þær tölur koma fram síðar. Við vinnum bara úr því sem liggur fyrir og fyrir viku var þetta nokkuð keimlíkt því sem við unnum úr tölunum viku fyrr. Heldur lakara en í fyrra, en með undantekningum. Skoðum tölurnar og eins og síðast þá er sambærileg tala síðasta árs í sviganum, plús eða mínus frá síðasta ári þar á eftir,  og nóta bene, það er miðað við 27.6 í ár, en 28.6 í fyrra. Einn dagur. Á ekki að skekkja myndina.

Ívar Kristjánsson, Ari Þórðarson, Hofsá
Ari Þórðarson með glæsilegan lax úr opnun Hofsár á dögunum. Myndina tók Ívar Kristjánsson.
Þverá/Kjarrá       452  (408)   plús 44
Urriðafoss           391  (365)  plús 26
Norðurá              350  (391)   mínus 41
Miðfjarðará         177  (271)   mínus 94
Blanda                175  (228)   mínus 53
Haffjarðará         153  (160)   mínus 7
Elliðaár               117 (128)    mínus 11
Langá                   81  (161)   mínus 80
Grímsá                 74  (121)   mínus 47
Ytri Rangá            66  (150)   mínus 84
Laxá í Kjós           62    (76)    mínus 14
Laxá á Ásum        55    (56)   mínus 1

Aftur minnum við á að tölurnar eru næstum vikugamlar og frést hefur af smálaxagöngum í stórstreyminu sem geta breytt tölunum verulega þegar við skoðum þær næst. En ef við horfum bara á göngur og tölur fram að þeirri viku sem ekki er með núna þá virðist að stórlaxagöngur séu ekki á pari við síðasta ár, yfirleitt eru tölurnar lægri. En taka verður með í pakkann að skilyrði hafa lengi vel verið erfið og t.d. sagði Haraldaru Eiríksson, alger snillingur, að í Kjósinni væri veiðin algerlega ekki í anda þess laxamagns sem gengið hefði í ána. Skilyrðin hefði dregið tölur niður. En við sjáum hvað setur.