Fyrir skemmstu póstaði Jón Helgi Björnsson mynd á FB þar sem hann var að stilla mið á skarf á Laxá í Aðaldal, með þeim orðum: Við getum ekki haft skarf á Laxá. En hvers vegna ekki, þeir eru jú hluti af lífríkinu, en hér kemur skýringin samt sem áður!

Þessar myndir voru póstaðar á FB í stórum hópi sem hefur áhuga á skotveiði. Þær eru upprunalega ættaðar frá Matt Brejcha og er af texta að dæma að þær séu teknar einhvers staðar við Vötnin Miklu og lýsir Matt þessi yfir áhyggjum sínum af stórtæki skarfa sem „fjölmenna“ á vötnin og ógna fiskistofnum. Er að skilja og heyra að þangað sæki skarfarnir vegna þess að æ erfiðara verður fyrir þá að afla sér viðurværis í söltum sjó. Hér á landi hefur það verið nokkuð vaxandi að dílaskarfar fljúgi upp með veiðiám, jafnvel allt að upptakavötnum þeirra og veiða sér til matar. Eru þeir stórtækir og jafnvel ógnandi ef að þeir þurfa að deila veiðistað með stangaveiðimanni. Eru til dæmi um að þeir togist á við veiðimenn um fiska sem höfðu tekið agn.
En myndirnar eru býsna sláandi og þó að þetta séu smáfiskar þá er magamál þessara stóru fugla all svakalegt. Við minnum á að eitt sinn birtum við myndaseríu sem Pétur Alan Guðmundsson í Melabúðinni tók af dílaskarfi sem hafði veitt sér ca 7 punda lax við brúna yfir Hróarslæk, skammt austan við Hellu. Á seríunni mátti sjá skarfinn hesthúsa laxinum í heilu lagi. Hann virtist svo upptekinn að hann tók ekki eftir Pétri sem myndaði í gríð og erg. Þegar fyglið hafði loks sporðrennt laxinum, varð hann Péturs var, ældi laxinum og flaug á brott!












