Laxá í Laxárdal, Bjarni Höskuldsson
Emily Simpson fór sátt til síns heima eftir heimsókn í Dalinn, er hér með einn yfir 60 cm! Mynd Bjarni Höskuldsson.

Veiði er lokið í Laxá í Laxárdal þetta árið og eru menn sáttir við gang mála. Það var ákveðinn ótti að svæðið væri á niðurleið vegna lítillar nýliðunnar, en veiðitölur sumarsins gefa tilefni til bjartsýni.. VoV heyrði aðeins í Bjarna Höskuldssyni umsjónarmanni á svæðinu….

Þetta fór vel af stað að sögn Bjarna, opnunarhollið, með 7 stangir, veiddi 48 urriða. 14 af þeim voru undir 60 cm og tveir þeir stærstu voru 70 cm. „Menn voru að taka þetta á ýmsar púpur og svo á streamer,“ sagði Bjarni

Og nú er veiði lokið og þá sagði Bjarni: „Nú er veiði lokið í Dalnum. Það var ekkert selt eftir 20. ágúst og því var veiðifélaginu gefinn kostur á því að hefja vinnu við veiðihúsið. Svefnálma rifin og ný verður klár fyrir næsta sumar. En veiðin gekk mjög vel. Um 700 fiskar , en nýting líklega innan við 50%, og meðalstærðin mjög góð.“

VoV heyrði í ýmsum sem veiddu í Dalnum í sumar og samdóma álit var að það hefði verið líflegt þetta sumarið og betra en síðustu sumur. Meðalstærðin afar góð, stundum voru menn með nokkra fiska og varla sporð undir 60 cm. Á sama tíma var mjög gott í Mývatnssveitinni, en þaðan höfum við ekki tölur enn, líklega er enn verið að veiða þar….