VoV var að vísitera í Vatnsá í Heiðardal í vikunni eins og fram hefur komið. Síðasti fiskurinn sem landað var, reyndist vera sjóbirtingur, 62 cm hrygna sem tók kvart tommu Black and Blue með keiluhaus. Fallegur fiskur, en samt afar skaddaður og við veltum fyrir okkur hvað getur valdið svona slæmum skaða á dýri sem er jafn ofarlega í fæðukeðjunni og raun ber vitni.
Fiskur þessi veiddist í Frúarhyl og var nýlega genginn úr sjó. Mjög bjartur en þó ekki lúsugur. Eins og sjá má af myndinni er sárið algert svöðusár og nýtilkomið. Opið og blæðandi. Það er okkur ráðgáta hvað valdið getur svona áverka og þætti okkur vænt um að lesendur sendi tillögur á Facebook síðu okkar…..










