Skagaheiðin heit- Royal Coachman málið!

 

Allt í einu hrynja inn fréttir af vötnunum hingað og þangað um landið eftir nokkra lognmollu í þeim fréttum síðustu vikur. Nú síðast heyrðum við af veiðimönnum sem voru í góðri þurrfluguveislu á Skagaheiði.

Skagaheiði, Hjörleifur Steinarsson
Hjörleifur dró þær á færibandi, allar á agnarsmáa þurrflugu.

Framan af, meira og minna allt vorið, var lítið að frétta af silungsverstöðvum utan frá suðurvíkunum í Þingvallavatni og svo Hlíðarvatni, þar sem vorveiðin var góð. Bleikjan í Þingvallavatni var þó sein í gang og oftar en ekki heyrðist af veiðimönnum sem fengu einn eða engan þegar skroppið var í vötnin í nágrenninu. Svo opnuðu reyndar Arnarvatnsheiði og Veiðivötn og það lifnaði yfir fréttunum. Og sama má segja um Skagaheiði. Við heyrðum í góðkunningja VoV í morgun, Hjörleifi Steinarssyni, sem hefur verið í góðum málum á Skagaheiði síðustu daga. Hann var í Andavatni í gær í mokveiði, landaði hverri bleikjunni af annarri á þurrflugu,  „Royal Coachman var málið í Andavatninu í gær, mikið um iðrildi á sveimi og þá er Coachmaðurinn oft sterkur, enda góð fiðrildaeftirlíking.  Þetta voru 1,5 og upp í tæp 3 pund, mest þó 8-900 gr. Mikill fiskur í Ölvesvatni, en frekar smár. Selvatn gaf sæmilega í gær, öðrum veiðimönnum sem eru hérna,“ sagði Hjörleifur í skeyti til VoV í dag. Fleiri hafa lýst fyrir okkur RC sem góðri fiðrildaeftirlíkingu sem hefur átt til að gefa þegar aðrar flugur hafa skilað núlli. Það verður þó að segja að ýmsar Caddisflugur skila líka fiðrildinu, t.d. Elk Hair Caddis.