Þá er að fjalla nánar um Leirá, en eitt það skemmtilegasta sem við félagarnir höfum haft fyrir stafni síðustu árin er að heimsækja svæði sem hafa kannski ekki verið svo mikið í sviðsljósinu. Að þessu sinni kynntumst við Brynjudalsá og Leirá og segir nú meira af þeirri síðarnefndu.
Leirá lætur lítið yfir sér skammt frá ósi þar sem aðal þjóðvegur landsins liggur yfir hana. Litlum sögum hefur farið af Leirá, enda hefur hún verið í fastri útleigu hjá hópi manna sem nýttu hana sjálfir. Lítið er um skráningar á veiði og lítið er að finna t.d. á samantektum Veiðimálastofnunar. Það er því lítið hægt að fjölyrða um veiðisældina. Þó gengur bæði lax og sjóbirtingur í ána og hún getur orðið dálítið vatnsfall í rigningartíð. Áraskipti eru af því hversu mikið gengur í ána af laxi og s.l. sumar var t.d. lítið af laxi, en góður slatti af sjóbirtingi. Leirá er kannski meiri sjóbirtingsveiðiá, en lax gengur sannarlega í hana líka. Leigutakinn Iceland Outfitters, Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir, hafa skoðað myndband tekið við hyl um miðbik árinnar fyrir 2 árum. Það sér vel í hylinn á myndbandinu og má glöggt greina 20-30 laxa! En hún er vatnslítil eins og Brynjan og að sama skapi veik fyrir löngum þurrkum. Þess vegna var hún lengi í gang á nýliðinni vertíð.

VoV leit tvisvar við í ánni, einu sinni um vorið að líta eftir sjóbirtingi og svo aftur í haust, þegar nokkuð var liðið á september og von til þess að fiskur væri genginn upp í á.
Vorveiðitúrnum gerðum við góð skil í vor. Áin kom okkur skemmtilega á óvart, en þó er þetta ekki magnveiðisvæði, áin lítil og eiginlegir veiðistaðir að vorinu helst tveir þó að fiskur og fiskur komi úr öðrum. Tveimur fallegum fiskum var landað í stuttu stoppi, báðir um það bil 50 cm. Sett í fleiri sem ekki festust eða sluppu.


En þá að hausttúrnum. Mikið var var í ánni þegar að var komið og örlítill litur að auki. Sem sagt fullkomið! Valkostirnir í síðsumars- og haustveiðinni eru miklu fleiri en um vorið. Auk stóru hyljanna neðan brúar er ca 2-3 kílómetra kafli frá annarri brú ofar í dalnum og langleiðina niður að veiðihúsi, þar sem áin liðast um sléttlendi og eru þar bakkahyljir með eyri á móti.

Bílslóði liggur niður með á skammt sunnan brúarinnar og má komast að fáeinum stöðum með því að fylgja honum, en síðan endar slóðinn og þá þarf að ganga og er það skemmtilegt dund þegar gott vatn er í ánni eins og nú var. Þarna geta fiskar legið bæði á merktum og ómerktum stöðum. Við urðum vör við laxa á tveimur stöðum, einum ómerktum og svo öðrum einstaklega flottum veiðistað sem er merktur (15) og heitir því eðalnafni Kúbudráttur. Þar voru einnig birtingar og við urðum vör við birtinga á fleiri stöðum á umræddu svæði. Sama má segja um hylinn neðan við efri brúna og þar lönduðum við nettum birtingi.

Ofan við þetta bakka/eyrarsvæði skiptir áin um andlit. Neðan við skólabyggingu sem þar er á árbakkanum er nokkuð brattur foss, sem þó er fiskgengur. Neðan við hann geta göngufiskar leynst, en hann var of vatnsmikill til að halda fiski fyrir okkur. Þar nokkru ofar eru tveir veiðistaðir sem eru taldir helstu laxastaðirnir. Þarna er áin í grunnu gili og er neðri staðurinn djúpur og mikill berghylur. Þarna lágu laxar, en það var erfitt að koma að þeim agni í svo miklu vatni, erfitt að komast í rétta stöðu til að egna rétt. Ofar er falleg renna þar sem áin kemur í streng og tekur aflíðandi beygju og fellur síðan með klapparbrík. Minnir að staðurinn heiti Andapollur. Þar lá líka lax, en tók ekki.
Nokkru ofar er komið að efsta merkta staðnum í ánni, sá heitir Sundlaug. Þarna eru rústir af mannvirkjum á báðum bökkum og á milli þeirra er nokkuð hraður strengur með breiðu neðan við. Ofan við þessa strengi er önnur breiða. Þarna urðum við vör við birtinga. Það er ekkert þarna sem hamlar því að göngufiskar geti haldið áfram ofar í ána, en veiðikortið endar þarna. Slóðin heldur áfram einhverja tugi metra upp eftir, en verður fljótlega þungur og endar við einhverskonar gryfju. Eins langt og augað sér, er áin að buna þarna á eyrum og ekki sérlega veiðileg. En aldrei að vita hvað tekið gæti við ef haldið væri gangandi ofar. Við höfðum hins vegar ekki tíma í það.

Við enduðum síðan þessa haustheimsókn með því að taka góða törn í hyljunum tveimur neðan við þjóðvegsbrú. Það var snúið að komast að þeim að þessu sinni, þarna höfðu verið framkvæmdir um sumarið og ekki hægt að aka lengur niður slóða að sunnanverðu. Þá varð að fara undir veginn, sem var beinlínis erfitt í vatnsflaumnum, því eina leiðin var að fikra sig eftir mjórri hillu á steinsteyptum veggnum. Vonandi fæst einhver lausn á þessu fyrir næstu vertíð. Í minna vatni má þó auðveldlega vaða undr brúnni.
Enn og aftur reyndist efri staðurinn okkur líflítill, alveg eins og um vorið, en þegar neðar dró í neðri hylnum var líf og fjör. Þarna varð smá ævintýri þar sem við settum í fimm fiska á stuttum tíma, en misstu þá alla. Allt voru þetta sjóbirtingar. Þeir voru smáir, smærri en um vorið, en fjörugir á léttu græjunum. Er það athyglisvert þar sem mun fleiri stórir fiskar komu fram í vorveiðinni.
Nett lítið veiðihús fylgir Leirá. Það er staðsett á norðurbakkanum skammt ofan við þjóðveg nr 1. Þar mun fjölmenni aldrei gista, en tveir geta sofið í herbergi, einn á sófa í stofurými og 2-3 í lágu svefnlofti. Þetta er tveggja stanga á, þannig að plássið dugar. Þarna er notalegt að vera, pallur og grill og sveitasæla.