Risa smálaxasumar í uppsiglingu?

Laxá í Kjós, smálax
Smálax 2016, Hurðarbakshylur í Laxá í Kjós. Ca 4,5 pund. Margt bendir til að mikið verði af smálaxi 2017. Mynd -gg.

Það er mjög almenn skoðun að laxveiðisumarið 2017 verði mikið smálaxasumar og eitt og annað styður það, en samt með þeim fyrirvara að enginn veit hvað hafið gerir við árgangana. En hér er eitthvað til að efla trúna á gott sumar…

…það er reyndar almennt álitið að lítið verði af stórlaxi. Til þess var of lítið af smálaxi í fyrra og þar sem að þetta er sami árgangurinn má ekki búast við of miklu. En það verður samt alltaf eitthvað. Og sumir hafa bent á að það hafi víða verið meira af smálaxi en veiðitölur gáfu til kynna, skilyrði hafi einfaldlega haldið veiði niðri. Fyrr í vetur greindum við frá því að umsjónarmenn Selár hefðu orðið varir við gríðarlega niðurgöngu seiða í fyrra og þá var fyrsta sumarið í fimm ár að áin var ekki bólgin af ískaldri snjóbráð fram eftir öllum júlí, sem að að eyðilagði alla útgöngu gönguseiða. Kalt voru hafði alls staðar áhrif síðustu ár. En hvað með síðasta sumar og horfurnar í ár?

Fyrir utan ofangreint með seiðaútgöngu úr Selá sem eflaust hefur átt víða við….þá fengum við ótrúlega sögu út úr spjalli við Pétur Pétursson, leigutaka Vatnsdalsár, Gljúfurár í Húnaþingi og Reykjadalsár í Reykjadal. Hann hefur haft Gljúfurá í Húnaþingi á leigu í nokkur ár og farið varlega og sparlega með hana. Hún er ekki stór og mikil laxveiðiá, en getur verið drjúg í góðu ári. Pétur hefur fylgst vandlega með seiðatalningum í ánni aftur í árin og sagði í samtali við VoV að á stærstu veiðiárum Gljúfurár á áttunda áratugnum hefði seiðamæling sýnt „fimm seiði á hvern fermeter“ eins og hann orðaði það….í fyrra hefði sambærileg statistík verið 55 seiði á hverja hundrað fermetra. Nú er Gljúfurá ekki frjósamasta og besta laxveiðiáin, en þessar tölur eru sláandi. Það gæti stefnt í mettölur úr henni. Verði annað hagstætt vor gæti 2018 orðið eitthvað ótrúlegt. Stórar göngur bæði smálaxa og stórlaxa. En fyrst 2017.