Laxá í Dölum, Harpa Hlín
Harpa Hlín að glíma við einn í Laxá í Dölum í dag. Mynd Stefán Sigurðsson.

Hér kemur svona „random“ frétt þar sem við höfum hripað niður hjá okkur punkta héðan og þaðan, allt frá Vesturlandi til Austurlands. Það er yfir höfuð fín veiði, eða í það minnsta Ásættanleg. Sums staðar hafa skilyrði enn verið erfið sökum roks og úrkomu, en lítum á þessa punkta…

Stefán Sigurðsson, Laxá í Dölum
Stefán Sigurðsson hjá IO hampar flottum laxi í Dölunum í dag.

Ingólfur Helgason sagði okkur nú í kvöld að 54 laxar væru komnir á land úr Flekkudalsá og taldi hann það mjög góða útkomu og sagði að fregnir hermdu að lax væri að ganga og allt liti vel út með framhaldið.

Ingólfur sagði okkur enn fremur að nýafstaðin opnun í Sunnudalsá í Vopnafirði hefði gengið vonum framar, áin er rakin síðsumarsá en samt sem áður var sex löxum landað í opnun og fleiri hristu sig af. Sunnudalsá hefur lengi verið seld saman með Hofsá, en er nú sér eining ásamt efri hluta silungasvæðis Hofsár. Hefur það mælst afar vel fyrir og byrjunin lofað góðu. Bleikjuveiði í Hofsá hefur verið mjög góð það sem af er.

Gísli Ásgeirsson sagði okkur í kvöld að komnir væru vel á þriðja hundrað laxar á land úr Selá og á fjórða hundrað væru komnir upp fyrir teljara í Selárfossi. Smálax væri að koma í alveg hreint bærilegu magni og útlitið gott. Sama mætti segja um Hofsá sem er þó aðeins lægri í veiðitölum, komnir um 160 á land þar og smálax að ganga.

Harpa Hlín hjá Iceland Outfitters er í Dölunum með viðskiptavini og sagði hún nú í kvöld að það væri „algjört bingó“ í ánni, seinni vakt dagsins skilaði 17 á land á fjórar stangir og áin væri full af laxi.. Það fer nú að koma að næstu vikutölum hjá angling.is en s.l. miðvikudag voru komnir 136 laxar á land úr ánni sem er nokkuð gott.

Erlendur gestur að þreyta einn í Dölunum í dag.

Þá heyrðum við í Pétri Péturssyni í kvöld og sagði hann menn sátta við afraksturinn í Vatnsdalsá sérstaklega þegar tillit væri tekið til þess að skilyrði hafa verið verulega erfið nánast frá opnun, stanslaust sunnan rok og oft mikið rigning með. Áin væri „barmafull“ og stundum með lit þannig að erfitt væri að meta hversu mikið‘ væri af fiski. „Við þessar aðstæður straujar laxinn uppúr og það getur verið erfitt að finna hann þegar hyljir og hefðbundir staðir eru aflagaðir út af vatnselg. En þetta tikkar ágætlega samt sem áður, fengum t.d. 8 í dag og misstum annað eins og svo er alltaf stóra bleikjan okkar og frábæru birtingarnir,“ sagði Pétur