Við höfum ansi víða að utan að okkur um afburða skemmtilega silungsveiði, erum þá að tala bæði um vatnaveiði sem og þar sem staðbundinn fiskur era ð veiðast í straumvatni. Við getum nefnt Vesturhópsvatn, Heiðarvatn í Mýrdal, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Hólaá í Biskupstungum og fleiri staði og fleiri.
Bæði hefur VoV kíkt tvisvar í Vesturhópsvatn, þar sem SVFK hefur frábæra aðstöðu, og auk þess höfum við frétt af veiðifólki sem hefur skroppið síðan. Þarna er mikið af fiski og auðvelt viðureignar. Mest er þarna urriði og reytingur af bleikju. Fiskarnir taka púpur veiddar hægt og urriðinn er gírugur í litla spinnera. Þarna er sérlega þægilegt að leyfa ungviðinu að spreyta sig.

Sama má segja um Heiðarvatn ofan Mýrdals. Það er flogið í gang og fiskur góður. Þaðan heyrast tíðar veiðifréttir þar sem menn eru first og fremst í bleikjuveislu. En urriði er þarna líka og mjög vænir innan um. Þannig höfum við heyrt um allt að 60 cm fiska. Stutt er í að sjóbirtingur bætist í veisluna.

Við höfum heyrt margar sögur af fínni bleikjuveiði í Þingvallavatni að undanförnu og sumir verið að landa upp í 4-5 punda bleikjum. Púpur, dökkar helst, veiddar djúpt hafa gefið best. Þjóðgarðurinn og Kárastaðir hafa verið heitir bleikjustaðir að undanförnu. Úlfljótsvatn hefur og verið að gefa vel, bæði neðan við skátamiðstöðina, í straumnum þar, út af kirkjunni og í víkinni þar fyrir norðan.
Þá má nefna Hólaá í Biskupstungum þar sem IO Veiðileyfi selja fyrir jörðum Austureyjar 1 og Laugardalshóla. Þrátt fyrir fremur stopula ástundun vegan veðurs var búið að skrá um 400 silunga, mest urriði í veiðibækur á svæðinu, þann 15.júní síðast liðinn. Það er alltaf að detta eitthvað nýtt inn, en látum þetta duga í bili.