Laxafréttir og punktar úr ýmsum áttum

Mýrarkvísl, Matthías Þór Hákonarson
Fallegur smálax dreginn úr Mýrarkvísl fyrir skemmstu. Mynd Matthías Þór Hákonarson.

Það eru allskonar laxafréttir og fréttaskot á flugi þessa daganna og klukkutímana. Lax er að ganga í ár, snemma á ferð eins og undanfarin sumur, en skilyrði hafa ekki getað talist hagstæð, mikið vatn í ám og frekar kalt. Það hægir á göngum og gæti einnig skaðað þroska seiða sem ættu að vera að tygja sig til sjávargöngu.

Styrmir Elí Ingólfsson, Þverá
Frá opnun Þverár á dögunum, Styrmir Elí Ingólfsson með fallega hrygnu. Myndina tók Ingólfur Ásgeirsson.

Dæmi um að laxinn gangi hægt má finna í rafveiðibók leigutaka Vatnsdalsár, vatnsdalsa.is, en þar voru að kvöldi 24.6 komnir 34 laxar í bók frá 20.júní,  dagarnir að gefa frá minnst 4 löxum upp í mest 9 laxa. Þar eru aðeins örfáir laxar skráðir ofan við Flóð, lang mest í Hnausastreng en nokkrir einnig í Hólakvörn. Svipaða sögu má segja t.d. úr Þverá/Kjarrá þar sem miklu hærri prósenta hefur veiðst í Þverá versus Kjarrá heldur en vant er og stafar fyrst og fremst af hversu bólgin og köld áin er. Herma fregnir að í hyljum neðan við gilið sem er efsta laxasvæði Þverár, sé mikið af laxi sem bíður eftir að sljákki í ánni. Þá er hann mikið að stökkva í Brennunni og það sama má segja um Straumana við ármót Norðurár og Hvítár.

Skemmtileg veiðisaga skaut upp kollinum frá Nils Folmer Jörgensen  sem var í Vatnsdalsá á sunnudag. Hann sagði að Pétur Pétursson leigutaki hefði eitt sinn sagt við sig að ef að lax stykki beint út af steinunum í Hnausastreng, ættu men að hlaupa upp í Hólakvörn og skauta hitstúpu eða Sunray yfir “Spegillinn”, þetta hafi hann gert, ekki í fyrsta skipti á sunnudaginn og 93 cm hængur negldi fluguna eins og skot!

Steinþór Jónsson, Urriðafoss
Steinþór Jónsson með ríflega 90 cm hængtröll úr Urriðafossi í Þjórsá. Myndin er fengin af fréttasíðu IO Veiðileyfa.

Leirvogsá var opnuð í gær og var mikið líf í kvörnunum neðan við brú og eins enn neðar, nálægt flugskýlinu. Annað dæmi um hæga göngu laxins. Veiði var þó góð, níu var landað og allnokkrir sluppu. Þá fréttum við einnig að Hafralóns hafi farið af stað með viðunandi hætti, fjórir á land og tveir misstir á fyrstu vakt. Nokkru áður hafði Skjálfandafljót verið opnað með níu lönduðum löxum.

Vífill Gústafsson, Langá
Vífill Gústafsson með dæmigerðan Langár-stórlax, 72 cm, dreginn úr Hrafnseyri, en ofar í ánni fengust ekki laxar í dag.

Annað sem einkennt hefur vertíðina það sem af er, er hversu snemma smálaxar eru að koma í árnar. Það er allnokkuð síðan að þeir létu first á sér kræla og ár sem þegar hafa skilað inn smálöxum eru all nokkrar, m.a. Urriðafoss í Þjórsá, Kjarrá, Brennan, Grímsá, Reykjadalsá, Flóka, Langá (að sjálfsögðu), Elliðaár (líka að sjálfsögðu) og nú síðast var Ölfusá opnuð á Pallinum og fyrsti laxinn úr ánni var veginn 2,2 kg eða fjögur og hálft pund.

Þá er þess virði að renna hér smá samantekt úr pistil sem að Odd Stenersen ritaði á Facebooksíðu áhugamanna um Elliðaárnar. Hann tekur þar saman veiði fyrstu fimm daga vertíðarinnar. Alls var 72 landað (var 81 í fyrra). 42 á maðk, 30 á flugu. Einum sleppt! 67 neðan teljara, aðeins fimm ofan við hann, enn eitt dæmið um hæga göngu.