Við höldum nú áfram að gera upp laxveiðina í einstökum ám og svæðum með uppgjöri Jóns Helga Björnssonar á Laxamýri á vertíðinni í Laxá í Aðaldal, en veiðin þar með á rórri nótunum.

Áður en við gefum Jóni orðið skal það rifjað upp að lokatala úr Laxá s.l. sumar var 709 laxar. Það er lakasta talan sem sést hefur í ánni síðan að 2012 sumarið skilaði aðeins 428 löxum.  Síðan 2012 hafa komið þrjú ár þar sem lokatalan fór undir þúsund laxa, nú í sumar, 849 laxar sumarið 2014 og svo hrollvekjan sumarið 2012, en þá var laxveiði mjög slök um land allt. Árin 2007 til 2011 fór veiðin aldrei undir þúsund, þau sumur voru að skila frá 1067 og upp í 1226 löxum.

En þá að Jóni Helga Björnssyni, hans uppgjör á sumrinu í Laxá er svo hljóðandi: „Veiðin var með rólegasta móti í Aðaldalnum í sumar. Laxinn kom hinsvegar snemma og segja má að það hafi verið reytingsveiði allt tímabilið. Augljóst er að það sem árnar á Norðaustuhorninu voru að glíma við voru tveir frekar litlir árgangar sem endurspeglast í veiðinni.

Ánægjulegt var að sjá að það kom gott hlutfall stórlax í ár í hlutfalli við smálaxin 2016. Sem gleður veiðimenn. Talsvert var um risafiska og náðust nokkrir á land.

Árið í ár er reyndar skólabókardæmi um það hversu gott er að veiða og sleppa þegar það koma svona lélegir árgangar í veiðina. Almennt má segja að það hafi ríkt góður andi í Aðaldalnum í sumar.

Varðandi veiðina þá ætti gott vor í sumar að skila góðri smálaxaveiði á næsta ári. Nýlegar rafveiðar í Laxá sýndu meiri þéttleika á vorgömlum seiðum í Laxá heldur en séðst hafa í áratugi. Sem bendir á að stórlaxaár eins og var árið 2016 sé einmitt það sem Laxá þarf.“