SVFR ætlar að efna til kynningarkvölds um hið víðfræga urriðasvæði í Laxá í Laxárdal í Suður Þingeyjarsýslu n.k. föstudagskvöld og er tema kvöldsins m.a. að segja frá öflugri veiðiaukningu á svæðinu síðasta ár og ótrúlegri meðalstærð urriðans í dalnum.

Í fréttatilkynningu frá SVFR segir að 36% aukning hafi verið á fjölda veiddra fiska í Laxá í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu á síðasta sumri. Um 650 urriðar komu á land og var meðalþyngdin með því hæsta sem þekkist í íslenskum ám, “þar sem 82% veiðinnar var yfir 50 sm að lengd og 37% yfir 60 sm,” eins og þar stendur
Einnig segir í fréttatilkynningunni: “Veiðitölurnar eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi þess að sókn í ánna var minni en fyrri ár, sem höfðu einkennst af nokkrum samdrætti í veiðinni. Eftirvæntingin fyrir komandi sumri er því mikil, enda vonast veiðimenn til að viðsnúningur til hins betra sé kominn til að vera og aðgerðir til verndar stofninum í ánni verði varanlegar.”
Á kynningarkvöldinu, sem haldið verður í félagsheimili SVFR í Elliðaárdal, munu veiðileiðsögumennirnir Bjarni Höskuldsson, Hrafn Ágústsson og Ásgeir Steingrímsson fjalla um fiskinn í Laxárdal, þá einstöku stemningu sem skapast við stórfiskaveiðina í dalnum, gefa veiðimönnum góð ráð fyrir komandi sumar. Veiðileyfi verða á tilboðsverði, áhugavert veiðispjall verður í boði og efni til fluguhnýtingar fyrir byrjendur og lengra komna.
Sjá má nánar á vef SVFR, www.svfr.is