Veiðiþjófur
Þarna stendur hann í skærgulum vinnustakkinum sínum, til hægri ofan við hann stendur vinnubíllinn uppi á mel.

Borið hefur á ítrekuðum veiðiþjófnaði í Fossá í Þjórsárdal, en síðsumars gengur í hana talsvert af laxi og þá er veiði oft góð. Leigutakar árinnar hafa gómað einn þjóf og frétt af fleirum og ætla nú að stöðva ósómann einu sinni fyrir allt.

Veiðiþjófur
Búið að súmma inn á kappann.

Guðmundur Atli Ásgeirsson, leigutaki Fossár, sagði að þeir félagarnir hefðu orðið varir við veiðiþjófnað á hverju ári frá því að þeir komu að leigu á ánni. Aldrei hefði þó tekist að góma þjóf þar til nú. Athygli vakti að umræddur veiðiþjófur var starfsmaður Landsvirkjunnar sem gerði enga tilraun til að draga dulu yfir það. Stóð við veiðarnar í skærgulum vinnustakki merktum LV og ofan við veiðistaðinn stóð vinnubíllinn, einnig merktur LV að sögn Guðmundar Atla. „Við höfum rætt við LV en enginn ábyrgur aðili þar hefur sagt neitt af viti við okkur. Einn sagði að málið yrði skoðað og haft yrði samband við okkur síðar. Ekki hefur orðið af því og við erum búnir að kæra viðkomandi til lögreglu. Skýrsla hefur verið tekin og málið er í kæruferli. Við ætlum alla leið með þetta, það er óþolandi að starfsmenn LV séu grímulaust að veiða í ánni í óleyfi. Ég segi grímulaust vegna þess að dæmin eru fleiri í sumar, veiðimenn við ána, kunningjar okkar, hafa séð til þeirra og látið okkur vita,“ sagði Guðmundur Atli.

Veiðiþjófnaður hefur verið viðloðandi laxveiðiár landsins alla herrans tíð, en á nýliðinni vertíð var umræðan háværari en oft áður, ekki síst eftir að eftirlitsmenn við Kjarrá gómuðu tvo veiðiþjófa við Rauðabergin í Kjarrá. Það mál er einnig í kæruferli þar sem veiðiþjófarnir mega eiga von á umtalsverðum sektargreiðslum. Leigutakar víða um land hafa tekið við sér á þessu ári og eru búnir að fá nóg af uppákomunum. Víða standa fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir dyrum og fullur vilji til að „fara alla leið“ með kærurnar.