Svartá í Bárðardal
Drónamynd sem sýnir fallegan veiðistað í Svartá. Mynd er frá Veiðitorginu.

Veiðileyfavefurinn Veiðitorg er að bæta miklu úrvali við sig þessa daganna. Við voru að bætast tvö spennandi veiðisvæði og fleiri eru á leiðinni að sögn umsjónarmanna vefsins.

Um er að ræða Svartá í Bárðardal og Skjálfandafljóts ofan Goðafoss. Svartá er ein nafntogaðasta silungsveiðiá landsins og á umræddu svæði í Skjálfandafljóti er að finna bæði lax, urriða og bleikju. Svartá hefur verið mikið í fréttum síðustu mánuði vegna umdeildra virkjunarpælinga sem þar er haldið á lofti. Andstæðingar slíks eru fjölmargir, enda væri einstakri veiðiá rústað með slíkum mannvirkjum. Áin er nokkuð vatnsmikil og þykir um margt minna á Laxá í Mývatnssveit, nema að hún er afskekktari og þar með friðsælli. Þetta er einstaklega frjósöm á með sérstæðu lífríki. Urriðinn getur verið afar stórvaxinn. Svartá á upptök í Svartárkotsvatni og rennur óskipt og ein fyrstu átta kílómetrana, en þá bætist Suðurá í hana og vatnsmagn árinnar eykst mikið við það. Eftir það eru tæpir tíu kílómetrar til viðbótar uns áin sameinast Skjálfandafljóti.

Svartá í Bárðardal.
Glæsilegur Svartárurriði með hefðbundinn bláan kinnarblett! Myndin erá Veiðitorginu.

Þrír söluaðilar eru við ána, Svartárkot, Víðiker og Bjarnastaðir. Frá Svartárkoti eru seldar þrjár stangir, en fjórða gæti bæst við. Þar er gott veiðihús. Fjórar stangir eru í Víðikeri, en hægt er að bæta þeirri fimmtu við. Þar þurfa menn að finna sér bændagistingar, sem og hjá tveggja stanga svæðinu Bjarnastöðum.

Við nefndum einnig Skjálfandafljót ofan Goðafoss, nánar tiltekið milli Goðafoss og Aldeyjarfoss. Um er að ræða 30 kílómetra langt svæði og þar sem veitt er frá báðum bökkum er um 60 kílómetra bakkalengd að ræða. Alls eru átta stangir á svæðinu og seldar tvær saman að lágmarki. Þarna veiðist lax sem ber að sleppa, en veiðimenn mega hirða fimm silunga á dag á hverja stöng. Áin getur verið lituð ef svo ber undir, en ávalt er hægt að finna tært vatn þar sem ár og sprænur falla í Fljótið. Rétt er að taka fram að þær fylgja ekki svæðinu, aðeins ármót umræddra áa og lækja. Annars er allar nánari upplýsingar að finna á vef Veiðitorgsins og samkvæmt Erlendi Steinari Friðrikssyni, sem rekur vefinn ásamt Ingvari Karli Þorsteinssyni, mun fleira nýtt bætast við á næstunni. Sýnist Ella Steinari að þetta stefni í 10þúsund veiðileyfi á 25 veiðisvæðum.