Flestir laxveiðimenn þekkja vel til túpuflugunnar Frigga, sem er fluga sem mörgum þykir gaman að hafa skoðun á. Gjöful er hún, en menn skiptast í fylkingar þegar kemur að ágæti hennar. Nú er hún komin í gættina sem lítil krúttleg fluga!

Friggi, þ.e.a.s. orgínallinn er belgmikil túpufluga, nokkurskonar tvíþekja þar sem hún er vafin ofan og undir niður allan legg sem gerir ansi mikla flugu þar sem algengast er að hún sé notuð í tommulengd. Þá tryggir þungur hausinn að flugan kafar rækilega.
Friggi er afar veiðin og á vaxandi vinsældum að fagna. T.d. var hún aflahæsta flugan í Vatnsdalsá á síðustu vertíð, gaf 73 laxa, góðum fjórtán löxum meira heldur en gamli sjarmurinn rauð Frances og 27 löxum meira en undraflugan Sun Ray Shadow. Við skoðun á rafrænni veiðibók Vatnsdalsár kemur í ljós að langsamlega algengast er að Friggi sé notaður tommulangur. Í þeim búningi er hann til í all nokkrum litum. En Friggi hefur líka verið til um t´ma sem míkró kónn.

En núna hefur höfundurinn Baldur Hermannsson kynnt til sögunnar lítinn og krúttlegan Frigga. Sem er bara venjuleg laxafluga. Til þessa er hann fáanlegur í þremur litum, en aflaust á Baldur etir að bæta í ef að flugan reynist vel. Við skoðun virðist engin ástæða til að ætla að hún geri það ekki. En hvað segir Baldur sjálfur um þessa þróunarvinnu á Frigga?
„Þessi útfærsla er í sjálfu sér nánast sú sama og í micro cone Frigganum. Sama hráefni. Bara fluga án keilu. Hef verið að prófa hana sjálfur síðastliðið sumar og í guida starfinu. Hún virkaði ágætlega. Fyrsti fiskurinn kom á nr 14. Í Þverá. Reisti fisk á Vitaðsgjafanum í sumar í Aðaldalnum á einlitann rauðann nr. 14 í mikilli tregveiði. Hvort hún verður eitthvað „hit“, veit ég ekki. Ég stýri vængjum aðeins upp til að fá meiri hreifingu í hana. Vængirnir eru selshár á leðrinu svo að þeir eru svolítið stífir.

Ég hef mikla trú á þessari útfærslu og vil þagga niður þetta leiðindatal um hlussutúpuna,“ sagði Baldur, en VoV spurði hann einmitt útí orðsporið sem stundum heyrist þar sem viðkvæmum veiðimönnum finnst flugan of groddaleg. Það er athyglisvert að heyra slíkt, en sjaldan heyrast slíkar raddir um t.d. Snældu og Frances túpur, að ógleymdum ýmsum útfærslum að SRS.
Gaman verður að fylgjast með því hvort að lítill nettur Friggi nái ekki einhverjum hæðum á komandi sumri, en hann virðist af myndum og umsögn höfundarins að dæma eiga góðan möguleika á því.