Hafralónsá, Þistifjörður, laxveiði.
Veiðistaðurinn Gústi í Hafralónsá, einn af bestu veiðistöðum árinnar. Mynd Nils Folmer Jörgensen.

Hafralónsá hefur skipt um hendur, áin fór í útboð fyrr á þessu ári og nú hefur veiðifélag árinnar ákveðið að taka tilboði Hreggnasa í ána. Áður var félagið Vesturdalur með ána, en það félag er m.a. skipað stórumeigendum að ánni.

 

Í fréttatilkynningu frá Hreggnasa segir: „Nýlega var undirritaður samningur milli Veiðifélags Hafralónsár í Þistilfirði og Hreggnasa ehf um rekstur veiðisvæðis Hafralónsár. Því mun veiðiréttur vera hjá þeim síðarnefnda næstu árin, og á það jafnt um laxa- og silungasvæði árinnar.

 

Hafralónsá í Þistilfirði er ein af stærri dragám norðausturulands, 40 km. að lengd, með um það bil 770 ferkílómetra vatnasvið. Þá eru meðtaldar þverárnar Kverká og Dragaá. Laxgeng er hún 23 km að Laxfossi og er þar að finna yfir 55 merkta veiðistaði. Hreggnasi ehf hefur haft veiðisvæði nágrannaárinnar Svalbarðsár í Þistilfirði á leigu mörg undanfarin ár auk þess að vera með hluta veiðitíma Hofsár í Vopnafirði í sölu. Þar fyrir utan hefur meginstarfsemi Hreggnasa farið fram á Vesturlandi, en innan vébanda félagsins má finna Grímsá í Borgarfirði, Laxá í Kjós og Laxá í Dölum. Sala veiðileyfa í Hafralónsá sumarið 2018 er þegar hafin.“