Sandá, Þorsteinn Stefánsson
Við svona dólgum má búast í Sandá, Þorsteinn Stefánsson veiðileiðsögumaður með einn sem er ekki langt frá metranum...
Sandá
Risahængur úr Sandá

Veiðileyfasalinn Fishpartner var með besta tilboðið í Sandá í Þjórsárdal sem fór í útboð fyrir skemmstu, í fyrsta skipti ein og sér, en áður hafði hún fylgt Fossá og komst þá á hana örlítil veiðireynsla. Þetta er athyglisverð og forkunnarfögur lítil á sem gefur oft góða veiði, sérstaklega síðsumars.

Gunnar Örn Pedersen, eigandi Fishpartner, greindi okkur frá þessu og sagði m.a.: „Það er ekki vitað með vissu hversu mikill lax gengur í ána en miðað við seiðamælingar má áætla að gengdin 2016 hafi verið um 400 laxar.

Þorsteinn Stefánsson, Sandá
Þorsteinn Stefánsson með glæsilegan hæng úr Sandá, 90plús sentimetrar…

Sandá er síðsumarsá og er besti tíminn í september og þá sérstaklega eftir vatnavexti. Mjög stórir laxar hafa veiðst þar í gegnum árin. Veiðisvæðið er virkilega fallegt, umlukið skóglendi, hömrum og lúpínu. Áin er fiskgeng langt inn á hálendi og eru uppeldisskilyrði seiða mjög góð. Það verður mjög spennandi að fylgjast með gangi Sandár þetta fyrsta ár hennar í almennri sölu.“

Það fer vel á því að Sandá komi inn í fréttirnar á sama tíma og Urriðafossvæðið í Þjórsá hefur sprungið út sem laxveiðisvæði. Margur hefur oft spurt sig hvaðan allur þessi mikli lax í Þjórsá kemur. Ábúandi á Urriðafossi sagði að fyrrum hafi aðeins verið reynt með stöng við Urriðafoss en lítinn árangur gefið. Leiða má rökum að því að betri möguleikar á stangaveiði hafi fylgt því að Þjórsá hefur hreinsast nokkuð upp með tilkomu fjölda uppistöðulóna, líkt og gerst hefur með Blöndu.

Sandá
Falleg hásumarsmynd frá Sandá. Veiðin er þó best þegar haustlitirnir eru mættir. Myndir eru allar frá Fishpartner.

Blanda hefur stóraukið eigin framleiðslu og eflaust hefur Þjórsá einnig gert það af sömu ástæðum, en hlutur hliðaráa Þjórsár hefur aldrei farið hátt. Kálfá, Fossá og Sandá eru ekki fræg nöfn meðal laxveiðimanna. Helst Kálfá ef horft er langt aftur í tíman. Hún er lítil og gaf helst aflahrotur eftir vatnavexti á haustin. En hún hefur reynst vera mikilvæg uppeldisstöð. Nýlegar kom Fossá inn með sínum fræga Hjálparfossi, en fram að honum er hún stutt. Það hefur þó komið í ljós að það er glettilega mikill lax í henni á haustin. Og núna dettur Sandá inn í umræðuna. Hún er frekar vatnslítil og vinaleg á sem getur vaxið hressilega í rigningum á haustin. Þær sögur fara af henni að hún renni víða um afburðafallegt landslag og allra síðustu ár, þegar hún hefur verið reynd, hafi hún gefið vel.