Leirvogsá, Helguhylur
Veiðikofinn við Leirvogsá og til hægri er hinn þekkti veiðistaður Helguhylur. Mynd -gg.

Veiði hófst í Leirvogsá á laugardaginn og veiddust tveir á opnunarvaktinni. Veðurfar var þá ekki eins blítt og í gær, en menn sáu talsvert af laxi hér og þar í ánni og misstu nokkra í viðbót við þá sem náðust á land.

Jóhann Davíð Snorrason sölustjóri hjá Lax-á sem nú er leigutaki árinnar sagði „gullvatn“ vera í ánni. Tveir laxar hefði komið á land á fyrstu vakt og fleiri tapast, m.a. í Kvörninni og Móhyl. „Hann var hrifinn af Sunrey, bæði á reki og strippaðan,“ sagði Jóhann og áréttaði að Leirvogsá er nú maðklaus, aðeins fluguveiði sé nú leyfð íánni. „Hann á þá meiri sjens að komast upp í ána,“ bætti Jóhann Davíð við og skírskotaði þar til þess að ótrúlega há veiðiprósenta hefur verið í holum neðan við þjóðvegsbrú í gegnum árin, þar hafi menn stundum verið að róta upp tugum laxa á dag á maðk.