Urriðaveiðin fór óhemjuvel af stað í Laxá í gær, mánudag. Mikil veiði, feitur og fallegur fiskur, veðurblíða og mikil fluga. Þá kom á óvart að stærsti fiskur dagsins var bleikja!
Meðal þeirra sem opnuðu uppi í Mývatnssveit var Bjarni Júlíusson og hann sendi okkur þessa umbeðnu skýrslu: „Veiðin er hafin á urriðasvæðunum í Laxá. Opnunin í Mývatnssveit var í gær (mánudag) og fór vægast sagt stórkostlega af stað. Um 180 fiskar komu á land fyrsta daginn.

Almennnt séð er fiskurinn vel haldinn og fallegur. Mest var tekið á púpur með andstreymisveiði, en nokkrir fiskar ginu við straumflugum. Geirastaðaskurðurinn gaf vel, eins og endranær, en Geldingaey og Helluvaðsland gáfu líka mikinn afla. Stærstu fiskarnir voru 60 – 64cm en ég náði reyndar 67cm bleikju í Brunnhellishrófi en þar hafði mikið af bleikju safnast saman. Það er fremur óvenjulegt að það gerist í Laxá.“
Svo mörg voru þau orð Bjarna og greinilegt að uppsveifla er þarna á ferðinni. Verður fróðlegt að sjá hver framvindan verður með bleikjuveiðina í ánni, en það er eflaust einsdæmi að stærsti fiskur í opnun á þessu svæði sé bleikja og hvað þá að mikið sjáist til þeirrar tegundar á þessum slóðum þó að bleikjan sé aðaltegundin í Mývatni, sem Laxá rennur úr.