Við höfum beðið nokkra veiðimenn og konur að rifja upp bestu minningar síðasta sumars og reifa væntingar sínar fyrir vertíðina 2017.
Ég sá stóran fisk hreyfa sig á speglinum við bakkann hinum megin í Þrepabóli í Selá sem hét reyndar áður „Ragnheiðarhylur“ Jóhannesdóttur eftir veiðikonunni sem veiddi þar fyrst. Það hafði ekki verið mikið að gera í Selá þessa veiðidaga í ágúst 2016 en ég er alltaf bjartsýnn í veiði. Veiðifélagi minn þennan dag var Kristína Katrín Þórsdóttir veiðikona og dóttir mín og hvatti hún mig óspart áfram. Hún hafði einmitt sett í lax í Hamarshyl þennan morgun á leynistað okkar feðginanna og var því í tökustuði sjálf.
Mig hefur alltaf langað að eiga sjálfur stórveiðimóment með börnunum mínum í veiði. Af einhverjum völdum hafði það ekki enn orðið raunin! Fyrir um áratug síðan var fjölskyldan búin að koma sér fyrir í Réttarhyl í picnic og ég gekk á veiðistað hinum megin árinnar. Hugmyndin var auðvitað að pabbinn setti í fisk og börnin, eiginkonan og tengdaforeldrarnir mundu dást að tilþrifunum. Ég kastaði með laglegum bogaköstum allan hylinn og skipti fljótt og vel um flugur en lítið hreyfðist. Þá sá ég hvar Oddur Ísar sonur minn var rösklega fimm ára að leika sér með bensínstöðvarstöngina og henti agninu út í lygnuna á hinum bakkanum. Svo varð mikið uppistand þar sem hann setti í fisk strax á fyrstu mínútunum. Þetta varð gleðistund.

En aftur að Ragnheiðarhyl. Litlir og miðjufiskar hafa leitað mig uppi í þeim ám sem ég hef sótt. Nú hafði ég séð stóran fisk og hugsaði, reyndar eins og alltaf við slík tilvik, að nú væri minn tími kominn! Ég óð út í strauminn eins langt og vöðlurnar þoldu. Mig langaði að ná flugunni, Sunray shadow, á spegilinn sem lengst út að bakkanum hinum megin og láta hana fljóta á speglinum. Í fyrsta kasti réðist vinurinn á fluguna en náði henni ekki. Ég kastaði aftur og ekki leið á löngu en aftur var rifið í en sagan endurtók sig. Ég hef aldrei haft mikla trú á þeim sem segja að eftir slíkar aðfarir verði laxinn fælinn og hreyfi sig ekki eftir þetta. Nú fór Sunrayinn enn hraðar yfir og þar kom að hann rauk í fluguna og synti beint á botninn. Svo hófst baráttan fyrir alvöru. Nú langar mig að segja að þessi barátta hafi verið miklu mun erfiðari en miðjumoðið mitt hingað til en það var ekki. Þetta var dálítið eins og að fara í sjómann við jafnaldra. Skemmtileg viðureign sem báðir stóðu nokkuð að jafnir en um leið þekktu báðir leikreglurnar. Svo fór að ég dró fiskinn að landi sem reyndist vera 98 sentimetra hængur.
Í vetur hef ég kortlagt í huganum hvar ég ætla að standa í Ragnheiðarhyl veiðisumarið 2017, hvernig ég ætla að prófa aðeins öðruvísi tilþrif í Hamarshyl og þyngja aðeins í línunni í Leifsstaðahyl. Þessar veiðipælingar koma til mín á furðulegustu tímum yfir háveturinn. Samstarfsmenn mínir líta ugglaust svo á að ég sé svona utan við mig vegna aldurs eða djúpra hugsana um framtíðaráætlanir í vinnunni. En þá er ég bara staddur í huganum við veiðistað í Selá.