Í samantekt á LV-vefnum angling.is kemur fram að bráðabirgðaútreikningar á laxveiðinni 2016 sýni að veiðin hafi verið nokkuð yfir langtíma meðalveiði á nýliðnu sumri. Stórlaxagöngur vógu þar upp á móti fremur slökum smálaxagöngum.

Á angling.is segir m.a. um þetta: „Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október. Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2016 sýna að alls veiddust um 53.600 laxar. Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 27% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2015 sem er 42.137 laxar. Veiðin 2016 var um 18.100 löxum minni en hún var 2015, þegar 71.708 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). Laxveiðin sumarið 2016 fór almennt vel af stað var góð veiði af stórlaxi (laxi tvö ár í sjó). Smálaxagöngur sumarsins voru hinsvegar með minna móti og því dró víða úr veiði þegar líða tók á sumarið.“