Líflegt í Heiðardalnum

Einn spengilegur úr vatninu. Mynd GMH.

Veiði hófst í Heiðarvatni í Heiðardal, ofan Mýrdals um síðustu mánaðamót. Veiðin fór vel af stað og er enn mjög lífleg. Staðbundinn urriði, sjóbirtingur og meira að segja bleikja, óvenu snemma, að gefa sig. Og vænir fiskar í bland, allt að ríflega 90 sentimetra sleggjur.

Annar spengilegur úr vatninu í dag. Mynd GMH.

Strax á fyrsta degi veiddust tveir um og rétt yfir 90 cm birtingar og strax á fyrsta degi voru vænar bleikjur í aflanum, en að öllu jöfnu koma þær varla inn í veiðina fyrr en líður lengra inn í vorið og spilar árferðið þá miklu máli. „Það er enn mikið af birtingi í vatninu og hann er að taka vel,“ sagði Guðlaugur Már Helgason, staðarhaldari og yfirleiðsögumaður í Dalnum, en slíkur starfskraftur er nú í fyrsta skipti á þessum slóðum og Guðlaugur, eða Gulli eins og allir kalla hann, hefur víðtæka og áratuga langa reynslu og þekkingu. Sagt er að enginn þekki vatnið jafn vel og hann.