Veiðisaga þessi er frá liðnu hausti og það var ritstjóri VoV sem lenti þar í þess háttar uppákomum á óvæntum stað að erfitt var að trúa því. En þetta var sannkallað stórlaxasumar og eftir að hafa landað 90 cm hæng og aðstoðað tengdasonin með annan 93 cm í Straumfjarðará, sem er ekki beinlínis þekkt fyrir sína stóru laxa, þá gat eitthvað sérstakt allt eins gerst í hausttúr í Vatnsá í Heiðardal ofan Mýrdals.
Þetta voru lokadagarnir í ánni, 9.-11.október. Síðustu dagarnir í aðdraganda sögulegra vatnavaxta. Vatnsá er lítil og nett að upplagi, en það er oft vætusamt á þessum slóðum og þá fær áin gusur. Ég hef oft veitt í henni í árana rás og minnist þess þó ekki að hafa lent í henni ill- eða óveiðandi. Núna var hún nokkuð bólgin eftir rigningartíð.
Ásgeir Þór, umsjónarmaður árinnar, hafði sagt mér nokkru áður að sumarið væri all sérstakt í ánni því að bæði væru göngur líflegar, þær höfðu komið óvenjulega snemma og það var óvenjulega mikið af stórlaxi. „Tveir komnir yfir 100 cm og þó nokkrir yfir 90 cm,“ sagði Ásgeir. Það hljómaði vel, áin er mest í smálaxi, en við höfðum af og til í gegnum tíðina fengið væna laxa, 70 til 84 cm og einu sinni meira að segja 91 cm.

Veiðibókin gaf til kynna að nóg væri af laxi en kannski ekki sérlega heppilega dreifður. Frúarhylur, beint niður af veiðikofanum, augljóslega aðalstaðurinn og aðrir staðir í efri hluta árinnar að gefa megnið af restinni. Þessa fyrstu vakt var planið að byrja í Frúarhyl, fara síðan víðar og enda svo í Frúarhyl, sjá hvort að ljósaskiptin væru vænleg þegar svo langt væri komið inn á haustið..
Það gekk á með skúrum og fallegir regnbogar glöddu augað inn á milli. Sæmilega hlýtt. Eitthvað sagði manni að byrja með stórar þungar túpur, en það leit enginn lax við því. Það boðaði af löxum af og til og skvettir heyrðust. Það var fiskur undir. Í fyrsta rennsli með smætti túpu, hálfrar tömmu „þýskan“ Frigga, kom ofboðsleg taka. Ofboðsleg! Og um leið rauk laxinn upp strenginn og stökk. Alger hnísa. Augljóslega meters sleggja. Ég trúði þessu varla, hafði aldrei landað stærri laxi en 97 cm og þessi leit út fyrir að vera nýr metlax.
Næstu 35-40 mínúturnar var aldrei dauð stund og ég hafði aldrei snefil af stjórn. Var með gamla Sage sexu og tólf punda taum, eitthvað sem að hingað til hefur dugað mér í flestan sjó. Aðeins einu sinni áður hafði ég engin völd haft með þessari stöng, það var urriði af svipaðri stærð og umræddur lax á Húsabreiðu í Minnivallalæk fyrir all nokkrum árum.
Laxinn rauk ýmist upp ána, upp úr hylnum í tvígang, upp á næstu breiðu. Eða niður úr hylnum, niður allar flúðir, fyrir beygjuna á Horninu og niður undir Svörtuloft. Og upp eftir aftur. Þrisvar fór laxinn undir stóran stein í efri stútnum á hylnum. Alltaf á sama stað og jafnan náði ég að teygja stöngina nógu langt út til að losa undan grjótinu. Laxinn leitaði ítrekað í þennan stein, líkt og hann hefði gert þetta allt áður. En það var annar steinn, stór og mikill, í þröngum strengnum fyrir ofan Hornið, sem átti eftir að koma við sögu. Heldur betur.Eftir að hafa farið niður undir fossbrotið í Svörtuloftum, óð hann upp alla strengi á ný og núna festi hann línuna undir umræddum steini. Allt sat fast og laxinn barðist um í yfirborðinu nokkrum metrum ofar. Þrátt fyrir að ég gæti staðið yfir þessum steini, gekk illa að losa að þessu sinni. Straumurinn var einfaldlega of þungur. Þarna var tækjunum loks ofboðið, djöfulgangurinn í laxinum var slíkur að hann sleit tauminn. Línan rak slök niður strauminn.

Ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að vera við svo búið, einhver hluti af mér sagði nokkru áður að ég ætti engan sjens í þennan fisk, en hann var jú enn á, þannig að hvers vegna ekki? En á móti kom alltaf: Þetta er sagan endalausa, hann er ekkert að þreytast!
Ég var alveg yfirvegaður þar sem ég stóð á árbakkanum niðri við Horn og laxinn farinn. Rölti upp í hús til að ná áttum og kasta mæðinni því að ég var nokkuð þreyttur eftir glímuna. Frúin var þar, hafði ætlað að kíkja í heimsókn innan tíðar. En þegar ég hóf frásögnina missti ég mig gersamlega. Var farinn að góla, stappa og berja lokuðum hnefa í veröndina á kofanum…..
Fleira markvert gerðist ekki þessa fyrstu vakt. Ég fékk töku í Frúarhyl sem vildi ekki festast.
Rölti upp í vatn og veiddi mig til baka. Sá nokkra laxa á röltinu en ekki marga, helst í Kárabólsfljóti sem er næsti staður ofan við Frúarhyl. Þar lágu nokkrir mjög neðarlega. Ég gerði mér vonir um að líf myndi færast í tuskurnar þegar tæki að rökkva. Stundum á haustin slokknar sú von ef að það snöggkólnar eins og á til að gera en að þessu sinni var ekki svo. Engu að síður tók enginn fiskur þrátt fyrir að ég sæi þá fara á stjá. Niður alla breiðu fóru þeir, tveir og tveir. Hængar runnu saman, það var allt komið í gang. Ég sá þá líka synda uppúr Frúarhyl og upp á grunna breiðuna milli Frúarhyls og Kárabólshyls. Þar sá á boðana af þeim og uppi í harðalandi rétt fyrir ofan mig, á örgrunnu vatni voru tveir smálaxar að athafna sig.
Smátt og smátt hvarf þetta sjónarspil allt saman inn í myrkrið og ég kom mér upp í hús.
Morguninn eftir var ekki farið snemma út að veiða. Það hefur reynst okkur einkar vel í haustveiði að slaka á og gefa þessu tíma. Oft er umtalsverður vatnskuldi eftir haustnótt og þá er alveg eins gott að hvíla sig ögn lengur. Um tíuleytið var ég þó kominn út að á og veðrið var afskaplega svipað og daginn áður. Það hafði rignt nokkuð um nóttina, hafði gengið á með skúrum um morguninn. Áin var vatnsmikil og hafði meira að segja tekið smá lit. Aftur hafði ég sama háttinn á og fyrri daginn, byrjaði í Frúarhyl, rölti svo upp í vatn, veiddi mig til baka og endaði vaktina í Frúarhyl. Ekki eiginlegar vaktir samt svona seint um haust, viðmiðið var átta til átta og bara matar- og hvíldrpása þegar hentaði. Klukkan átta var varla veiðandi lengur fyrir þreifandi myrkri.
Ég fékk hressilega töku í Frúarhyl, en síðan ekkert. Eins og fyrri daginn voru skvettir og boðar af og til. Ein stór hrygna stökk hæð sína. Þá var það vatnið og ríflega punds urriði í útfallinu. Ég vissi núna hvar laxarnir voru á leiðinni frá vatni og niður eftir, einbeitti mér að þeim blettum, en allt kom fyrir ekki. Suma laxana frá fyrri degi varð ég ekki einu sinni var við í þetta skiptið. Höfðu kannski flutt sig.
Í neðanverðum Kárabólshyl voru nokkrir og ég eyddi smá tíma í þá. Þeir voru samt ekkert að taka og því lá leiðin fljótlega aftur að Frúarhyl. Ég var með hálftommu svartan og bláan Frigga að þessu sinni, sem oftar höfðu stóra túpurnar engri töku skilað. Ég hafði kastað um stund og beitt dauðareki með sökktaumi, þegar ég heyrði skvampt ofan frá. Leit upp og sá hringi eftir lax á broti Kárabólshyls. Hugsaði mér að læðast þangað aftur innan skamms og prófa aðra nálgun en fyrr. Þarna stóð ég og góndi upp eftir nokkur sekúndubrot, úti var Friggi á dauðareki.
Skyndilega var rifið í af fádæma heift, ég hins vegar algerlega óviðbúinn með línuna læsta á milli fingra. Litlu munaði að stöngin væri rifin úr hendi mér, en þessi viðbrögð, eða „ekki viðbrögð“ af minni hálfu gerðu það að verkum að laxinn hreinlega sleit í tökunni! Og ef það var ekki nóg, heldur trylltist hann við svo búið og æddi um allan hyl, boðinn af honum risastór og hann stökk og stökk. Líkt og hann áttaði sig ekki á því að hann væri frjáls ennþá, eins og að hann áliti að hann væri fastur við mig af því að flugan var í kjaftinum á honum. Loks, eftir fjögur stökk þá róaðist hann og lét af brjálæðisganginum. Þetta var önnur meterssleggja. Ekki nokkur vafi og svo líkur þeim frá fyrri deginum að ég myndi ekki útiloka að þetta hafi verið sami laxinn. Nema að ég vissi að það voru all nokkrir slíkir fiskar í ánni.

Uppi í kofa nokkru síðar var eftir því tekið hvað ég tók þessum atburði með miklu jafnaðargeði miðað við fyrri daginn.
Síðdegis fór ég á neðri partinn, ók yfir hæðirnar og niður í Kerlingardal. Lagði þar á hefðbundnum stað og gekk upp í Hauksholu. Og raunar ofar. Í Hauksholu stökk fiskur en það var ekki meira að frétta þar. Þá var það neðri göngutúrinn, niður með bökkum og allt að hyl sem ég tel að heiti Bakkahylur og er neðarlega í gilinu skammt áður en að það opnast fram á aurana þar sem Vatnsá mætir jökulánni Kerlingardalsá.
Ég var þarna kominn með litla svarta straumflugu sem mér var sagt einhverju sinni að héti Svartur Tóbí vegna þess að höfuðlitir flugunnar eru hinir sömu og í spúninum fræga. Mér þótti rétt að sökkva flugunni og notaði því sökktaum. Og þarna setti ég í lax sem blessunarlega toldi á þó að ég hafi raunar fengið smá óbragð í munninn að vera að trufla greyið. Þetta var 84 cm hrygna og svo legin og svört á belginn og tilbúin að ég man varla eftir öðrum eins feng.
Um kvöldið kom ein taka á svarta Tóbífluguna, en sem fyrr vildi laxinn ekki tolla á. Og síðan var það sama kyngimagnaða sjónarspilið og kvöldið áður, laxarnir að ferðast um breiðuna og upp á þá næstu fyrir ofan, dundandi við botninn þar sem greinilega var búið að hreinsa til.
Seinni morguninn okkar var vaknað seint og ekki mikil veiðispenna. Þó leið mér þannig að ég vildi reyna eina eða tvær flugur í Frúarhylnum. Lét það eftir mér, en var síðan ákveðinn að pakka saman. Og segir ekki máltækið: Allt er þegar þrennt er? Í þriðja kasti var ferleg taka, enn og aftur, og af sama meiði og þær fyrri. Laxinn var á og tók geigvænlegan sprett upp hylinn. Lausa línan þeyttist öll upp í loft og inni í vikinu efst í hylnum slengdi þessi höfðingi sér uppúr ánni í mögnuðu stökki. Hann lenti með miklum boðaföllum, snéri við og æddi niður hylinn…..og var af!
Þessi var ekki alveg eins stór og hinir tveir, en samt augljóslega vel yfir 90 sentimetrana. Ég var alveg sleginn út af laginu við þessi endalok. Hélt áfram um stund en náði engri tengingu við hylinn eða ána. Mér varð hugsað til þess hvar ég var staddur, svona veiðisaga þætti ekkert stórmál ef ég hefði verið í Laxá í Aðaldal, Vatnsdalsá, Víðidalsá eða Stóru Laxá. En ég var ekkert þar, heldur í litlu nettu og krúttlegu Vatnsá.
Að svo búnu pökkuðum við saman. Það var að draga mikið og svart belti á himininn, enda var hann að fara að opnast. Metrigning síðustu áratuga var um það bil að hefjast og seinna skyldist okkur að efsti hluti árinnar, sögusviðið, hafi verið eins og vígvöllur eftir að stórflóð sem kom ofan úr Vatninu og flæmdist um allt.










