Það vekur jafnan athygli og eftirtekt þegar þekktir fluguhnýtingamenn og hönnuðir senda frá sér nýja flugu. Gylfi heitinn Kristjánsson, höfundur Króksins, Mýslunnar og Beykisins er höfundur Beyglunnar sem svo var skírð hér um árið og við rifjum nú upp. Stefán, bróðir Gylfa, rekur Kröflu.is sem nú er til húsa í gamla húsnæði Veiðiflugna á Langholtsveginum og við heyrðum í honum hljóðið á sínum tíma.
Eins og alltaf þegar Gylfi sendi frá sér nýja flugu fór hún í box útvalinna fluguveiðimanna til reynslu í eitt sumar áður en hún fór í sölu. Beyglan gekk í gegnum slíkt próf og ekki ofsagt að hún hafi staðist prófið, segir Stefán.
Beyglan er afar sérstök silungafluga. Óhætt er að fullyrða að hún líkist ekki öðrum silungaflugum. Einkenni hennar eru vængirnir sem setja afar skemmtilegan svip á fluguna og marka sérstöðu hennar öðru fremur. Ekki kæmi á óvart þó að lax myndi grípa þetta dýr ef honum stæði það til boða, í það minnsta hefur Mýslan reynst góð laxafluga þó ekki sé hún oft hnýtt undir á laxveiðum. Stefán segir: ,,Í Beyglunni er afar sérstakt efni í vængjunum. Ég komst yfir þetta efni erlendis. Ég lét þetta efni í hendurnar á Gylfa bróður mínum og útkoman var þessi líka glæsilega fluga. En þegar til átti að taka var þetta efni ekki fáanlegt nema í afar litlu magni svo dugði aðeins í nokkrar flugur. Við hjá Krafla.is brugðum því á það ráð að láta framleiða þetta efni fyrir okkur sérstaklega erlendis. Það útheimti mikla vinnu en við vorum mjög ánægð með árangurinn.”
Beyglan var frumsýnd í bleikjuveiði í Breiðdalsá um árið. Það var Jens Magnússon sem það gerði og var hann mjög ánægður með árangurinn. ,,Ég var að veiðum á silungasvæðinu neðanverðu í Breiðdalsá og var í fiski þegar menn í kringum mig urðu ekki varir á aðrar flugur. Fyrir mér er þessi fluga hreint listaverk og ef marka má viðbrögð silunganna þá eru þeir sammála mér,’’ sagði Jens.
Annar veiðimaður sem fékk Beygluna til reynslu í byrjun var Eggert Skúlason, þáverandi ritstjóri Veiðimannsins. ,,Ég reyndi Beygluna í fyrsta skipti í Laxá í Mývatnssveit. Í þriðja kasti tók sex punda urriði þessa mögnuðu flugu. Og hann tók hana með ofsafengnum ákafa. Svakaleg viðureign og skemmtileg endalok. Hann fékk líf og Beyglan gaf mér marga fiska í þessum túr.Ég veiddi mjög vel á Beygluna líka sem kúluhaus í bleikjunni. Þetta er enn ein alhliða hönnunin frá Gylfa Kristjánssyni og fluga sem er skyldunotkun á hverju vatnasvæði. Með Beyglunni var Gylfi búinn að hanna línu af silungaflugum sem henta við allar aðstæður,’’ sagði Eggert Skúlason. Stefán Kristjánsson bætti við að Beyglan hafi gefið sér mjög minnisstæða veiði fyrsta sumarið: ,,Ég reyndi Beygluna í fyrsta skipti fyrir vestan. Flugan reyndist afar skæð. Ég kastaði Beyglunni á hyl þar sem mikið var um nýgengna sjóbleikju. Stórar bleikjur voru að nudda af sér lús. Sjö bleikjur tóku Beygluna, nánast í beit. Þetta er að mínu mati ótrúlega glæsileg og gjöful silungafluga og afar skemmtileg viðbót í flóruna. Ég spái því að þetta eigi eftir að verða silungafluga númer eitt hér á landi næstu árin,’’ sagði Stefán Kristjánsson.










