Óhætt er að segja að veiði hafi farið betur af stað en gengur og gerist í Stóru Laxá í Hreppum að þessu sinni, áin er þekkt fyrir að lax vaði upp ána í haustrigningum en að þessu sinni stendur ekkert á snemmgenga laxinum, kannski vegna þess að aðstæður til göngu hafa verið einstaklega góðar. En hvað um það, veiðin hefur verið frábær.

Til þessa hefur aðeins verið veitt á tveimur neðstu svæðunum, 1 og 2 og þegar Árni Baldursson leigutaki árinnar tók saman stöðuna eftir 17 daga veiði á fjórar stangir, þá var niðurstaðan einstaklega flott. 106 löxum hafði verið landað. Þetta er í stíl við aðrar fréttir af svæðinu, Sogið hefur farið biklu betur af stað en nokkur þorði að vona og veiði í Ölfusá hefur verið lífleg. Það er bæði stór og smár lax að ganga. Vonandi veit þetta á gott sumar!