Núna veit nýr umhverfisráðherra allt um Svartá og Suðurá

Það er bæði fallegt og veiðilegt við Svartá. Myndin er fengin af FB síðu VSS.

Einkafyrirtæki nokkurt hefur hug á að virkja Svartá í Bárðardal eins og fram hefur komið. Í framhaldi af umræðunni var stofnaður þrýstihópur veiðimanna og útivistarfólks sem að bera hag hinnar mögnuðu perlu fyrir brjósti og stjórn þess hóps hefur nú átt fund með nýjum umhverfisráðherra…

Hópurinn sem nýtir Facebook til að koma fréttum og tilkynningum áleiðis, og telur nú 270 manns, hefur sýnt áræðni í umræðunni og fréttaflutningi af umræddri hneisu, enda á Svartá í Bárðardal varla sína líka í íslenskri veiðivatnaflóru, að ógleymdri náttúruparadísinni sem hún er og hefur stundum verið köllum vasaútgáfa af Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal.

En sem fyrr segir, stjórn hópsins, sem kallar sig Verndarfélags Svartár og Suðurár (Svartá heitir Suðurá á neðri hlutanum), hitti Björt Ólafsdóttur, nýbakaðan umhverfisráðherra nýverið og hafði þetta að segja um fundinn:

„Stjórn Verndarfélags Svartár og Suðurár fór á fund með nýskipuðum umhverfisráðherra, Björtu Ólafsdóttur, í morgun(Í gær). Á fundinum kynntum við fyrir ráðherra mikilvægi og sérstöðu Svartár og Suðurár í íslensku náttúrufari og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir SSB orku ehf. í Svartá. Rætt var um óafturkræf áhrif virkjunarinnar á lífríki svæðisins. Einnig voru hugmyndir um friðlýsingu svæðisins reifaðar og ráðherra gerð grein fyrir erindi félagsins til nefndar á vegum ráðuneytisins er fjalla á um hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð. Þar leggur VSS til að Stórutungu svæðið verði tekið inn.

Staða Svartár og Suðurár í þriðja áfanga rammaáætlunar voru ræddar og hvernig staðið var að nýtingaleyfi vatnsréttinda ríkisjarðarinnar Stórutungu til SSB orku ehf. Stjórn VSS sendi erindi til fjármálaráðuneytisins í júni 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum hvað það varðar en hefur ekki enn fengið fullnægandi svar.“

Fallegur foss í ánni. Myndin er fengin af FB síðu VSS.
Fallegur foss í ánni. Myndin er fengin af FB síðu VSS og það sama á við um myndina efst á síðunni.

Svo mörg voru þau orð og getur nú ráðuneytið ekki hér eftir sagt annað en að það hafi verið sett vel og rækilega inn í málið frá sjónarhóli þeirra sem finnst það hneisa að virkja á þessum stað.

                                                    Endur á válista

Við þetta má bæta, að Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur ritar grein í timarit Fuglaverndar, sem út kemur um þessar mundir, og gerir þar náttúrufar svæðisins að umtalsefni. Fyrir utan magnað gróðurfar fer hann mörgum orðum um fuglalífið og tínir þar m.a. til að þrjár andategundir sem eru á válista eiga trausta búsetu á þeim slóðum þar sem áin og landið verða lögð í eyði. Þetta eru hin magnaða og sjaldséða gulönd, straumönd og húsönd. Það er kannski pistillinn um húsöndina sem mesta athygli vekur, þar sem gulönd og straumönd verpa víða um land,  því að fram kemur að nokkrir tugir húsandarpara séu að staðaldri og verpi á svæðinu, en húsönd er staðfugl og flestir sem til þekkja munu líklega hafa talið að hún væri aðeins á Mývatni og Laxá og mögulega í mýflugumynd á Soginu og Brúará. En þarna á Svartá er stofn húsanda, auk þess sem Svartá virðist vera öryggisventill fyrir hinn viðkvæma húsandarstofn á Mývatni og Laxá, þannig að þegar það svæði fer í sínar reglulegu niðursveiflur, þá fjölgar húsöndum á Svartá, þ.e.a.s. húsöndin fer annað þegar ekki er lífvænlegt á heimaslóðum. Þetta búsvæði húsandarinnar er meðal þess sem mun leggjast af, verði af umræddri virkjun.

Ef einhverjir eru að lesa þetta sem ekki þekkja til, þá er að auki magnaður stofn urriða í Svartá og er hún nýtt eingöngu sem „veitt-og-sleppt“ veiðiá. Þeir sem vilja vita meira um félagið og baráttuna um að bjarga ánni og svæðinu undan virkjunaráformum ættu að fletta upp á Verndarfélag Svartár og Suðurár á Facebook. Hópurinn er opinn öllum.