Þingvallavatn: „Klárlega eitthvað í gangi“

Þeir eru líka margir hverjir í góðum holdum. Bæði þessi mynd og hin með fréttinni eru frá Kárastaðasvæðinu og fengnar af FB-síðu Fish Partner.

Við vorum með frétt á dögunum um að slíkt ójafnvægi væri í fiskistofnum Þingvallavatns að réttast væri að efna til aðgerða og rannsókna. Þetta báru veiðimenn sem gjörþekkja til Þingvallavatns. VoV leitaði álits hjá Fish Partner, sem er með nokkur af þekktustu svæðum vatnsins á leigu. Fyrir svörum varð Sindri Hlíðar Jónsson.

„Já, það er klárlega eitthvað að í gangi, hvort þetta séu eðlilegar sveiflur og stofninn finnur jafnvægi aftur kemur í ljós. Svo er jafnvel spurning hvort þetta sé eðlilegt ástand? Fyrir 20árum þegar ekkert var af urriða í vatninu var ekki eðlilegt ástand og ekki verið eðlilegt síðan urriðanum var nánast útrýmt við gerð Steingrímsstöðvar. 40-60cm fiskurinn er mjög vel haldin en þá sem við erum að veiða í Villingavatnsárós og stærri fiskurinn er ekki allur horaður, og flottir 70-90cm að veiðast. En ekki jafn mikið og fyrir 5 árum síðan.

Magur eða ekki, myndir eru misjafnar sem heimildir.

Sindri er auðvitað að tala um að þegar Steingrímsstöð var stofnsett þá var Efra Sogi lokað með stíflu og ekki gert ráð fyrir að urriði kæmist þangað ofan úr vatni, hvað þá til baka, en Efra Sog var aðal hrygningarstöð urriðans í Þingvallavatni. Hrygning var og er sem fyrr í þeim ám sem í vatnið renna, Öxará, Ölfusvatnsá og Villingavatnsá, en stærstur hluti stofnsins hrygndi í Efra Sogi. Urriða tók að hnigna og það hratt. Ef að VoV man atburðina í réttri röð, þá var reynt að bera hrygningarmöl í vatnið við Steingrímsstöð og útfall Efra Sogs, en þegar stöðin brast í rosalegu veðri hreinsaðist allur „botn“ í burtu.

Landsvirkjun kom að miklum seiðasleppingum í framhaldinu og aftur var lappað upp á botninn við flóðasvæðið. Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur hjá Laxfiskum hélt utan um þær aðgerðir og er enn viðloðandi málefni Þingvallavatns. Urriðinn fór að hrygna þar og vaxa og dafna á ný. Þá var friðun hans (v&s) afar mikilvæg til að hjálpa stofninum aftur á lappir. En þá fór að stefna í það ástand sem nú er. Örn Hjálmarsson fluguveiðimaður og hnýtari par excellens segir að hann og nánast allir Þingvallamenn sem hann þekki og hafi haft spurnir af, hafi séð bleikjur og murtur í belgjum urriða og stíflandi kok þeirra. Gömul veiðisaga úr Þorsteinsvík segir frá manni sem var að glíma við væna bleikju, en þegar hún var komin að háfnum, hafi stór dökkur skuggi birst skyndilega, rifið hafi verið fruntalega í stöngina og eftir sat veiðimaður með slitinn taum, bleikjulaus. Og eitt var á hreinu, skugginn var ekki himbrimi. Frásagnir Nils Folmer Jörgensen og fleiri um þurrfluguveiðar á ION svæðunum (Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárós) sýna einnig svart á hvítu að urriðinn nýtir allt sem tönn á festir.

Cezary Fijalkowski, sem þekkir vatnið betur en flestir, hefur farið um allt vatn með djúpleitartæki. Niðurstaða hans er að bleikjan sé hrunin og murtan svo gott sem horfin, sem er ekki lítil breyting því að forðum var hún veidd í stórum stíl í net og soðin niður til manneldis. Og var um leið aðalfæða urriðans sem þá var og hét. Og bleikjustofninn var einn sá flottasti á landinu. Nú mætti ætla að tilefni væri til að vakta vatnið betur og huga að mögulegum aðgerðum. Cezary vill t.d. leyfa hóflegt dráp á urriða, þ.e.a.s. smærri fiskinum, ekki tröllunum. En hvort að það myndi virka eða fleira þyrfti að koma til, verður ekkert fullyrt um hér.