Minnti á gamaldags typpaslag

Hnýtarinn með risalax úr Blöndu.

Bjarki Már Jóhannsson viðskiptastjóri hjá Geosalmo, einu af leiðandi fyrirtækjum landsins í landeldi á laxi, er „forfallinn veiðisjúklingur“. Og hefur verið frá barnæsku. Hann er snjall fluguveiðimaður og hefur auk sinna starfa í landeldinu verið talsvert við leiðögn í Rangánum. Og hann er mikill hnýtingameistari, en hnýtingar hans hafa farið inn á frekar sjaldgæfa og sérviskulega braut.

Uppáhald margra, Green Highlander.

„Ég var byrjaður að veiða og vinna í veiðibúðum strax 15 ára. Kynntist þar meisturum eins og Erni Hjálmarssyni sem höfðu mikil áhrif á mig. Ég hnýtti og hnýtti og þegar fram liðu stundir, og ég var farinn að gæda, var ég með mínar eigin útfærslur af þessum venjulegu flugum, SRS, Frances og þeim öllum. Ég setti mitt eigið tvist á þær eins og margir hnýtarar gera. Og menn verða að trúa á flugurnar. Kúnnarnir mínir fóru að gera það vegna þess að þær virkuðu. Ég fór að fá fjöldapantanir fyrir komandi sumur og var kominn út í að hnýta kannski þúsund stykki af þessum hefðbundnu flugum, með mínu tvisti. Þá fann ég það koma smám saman að ég þurfti tilbreytingu. Ég frétti af námskeiði sem Bjarni R. Jónsson var að halda á vegum Fishpartner. Það var árið 2020. Hann var að kenna mönnum að hnýta gömlu klassísku fjaðraflugurnar. Það eru í mörgum tilvikum stórfengleg og flókin listaverk og tilhugunin heillaði mig strax,“ segir Bjarki.

Til gamans gert, „ný“ fluga sett í gamla búningin. Þetta er Autum Hooker eftir Nils Folmer, Bjarka hefur tekist vel til þarna.

Hann var áður byrjaður á því að nota stærri tvíkrækjur við veiðiskapinn í staðinn fyrir túpurnar, hvort heldur hann veiddi sjálfur eða  leiðsagði öðrum. „‘Eg er í stóru ánum, Rangánum, Blöndu, Laxá í Aðaldal og nokkrum sinnum í Lakselva. Þar sem maður þarf að vera góður með tvíhendum, þar vil ég vera.

-Svo kom að því að skrefið var stigið og ég skráði mig hjá Bjarna. Eins og með annað, þá tók ég strax í hornin á verkefninu og var fljótur að læra. Ég myndi segja að ég væri enn að bæta mig. En við erum ekki margir í þessum hnýtingum hér á landi og fækkar.“

Double Leopard, hreint listaverk.

Það er oft talað um að Jock Scott sé toppurinn í þessum klassísku og flóknu hnýtingum, öll þessi efni og yfirlega. Hvar stendur þú?

„Jokkinn er merkilegur og nærri toppinum í þeim efnum. Það eru skemmtilegar sögur af Jock Scott. Það var skoskur leiðsögumaður að nafni Jock Scott og hann var að leiðsegja hinum enska Lord Scott. Hann á að hafa hnýtt þessa flugu og lordinn nefndi Lady Scott í höfuðið á frú sinni. Með tíð og tíma festist samt nafn leiðsögumannsins við fluguna . En sannast sagna þá eru til margar útgáfur af Jock Scott og hún gat verið flottari í einu boxinu heldur en í hinu næsta. Menn fóru í að nota alls konar furðufjaðrir. Þetta var eiginlega eins og gamaldags typpaslagur, hver væri með flottasta og flóknasta Jokkinn. Ég hef aldrei farið út á þá braut, meira verið að halda áfram að fylgjast með, skoða bækur og netið. Og bara leika mér. Jock Scott er vissulega erfið, en ekki erfiðust að mínu mati.“

Sú kræfasta, Champion. Listaverk í boði Bjarka.

Hver er þá erfiðari?

„Það eru nokkrar erfiðari. T.d. fluga sem heitir Champion. Það er hægt að vera upp í 6-7 klukkustundir að hnoða henni saman svo vel sé að verki staðið. Hún er svakalega erfið. Mér detta fleiri í huug, t.d. ein sem heitir Green Doctor. Og nefna mætti fleiri. Þegar ég spyr menn um uppáhöldin eru það furðu margir sem nefna Green Highlander og vissulega er orginallinn hennar bæði fallegur og krefjandi. Á þessum myndum sem ég læt ykkur í té, ætla ég líka að leyfa að fljóta men Bill Young eftir Pétur í Nesi. Hann lést fyrir skemmstu og liggja eftir hann margar flugur og veiðnar með afbrigðum.“

Green Doctor er krefjandi.
Bill Younng, í minningu Péturs í Nesi sem lést fyrir skemmstu. Höfundur flugunnar og margra annarra sem hafa skapað ótal veiðisögur og minningar.

Myndirnar sem höfum leyfi þitt til að birta hérna segja mikla sögu. En sú var tíðin að menn veiddu fyrst og fremst á einkrækjur frá stærðum 2 og upp í 0/2 og jafnvel stærri. Ertu eitthvað að kasta þessum flugum?

„Það kemur fyrir að þær fái að synda við og við. En fluga sem er samansett með 25-30 efnum tvístrast alltaf eitthvað við það. En ég er alltaf með talsvert af þessum flugum í boxunum mínum og við vissar aðstæður fá þær sitt tækifæri og ég get staðfest að þær veiða. Það er þannig, að allt þetta efni, þessi stærð, þessar flugur bjóða upp á allt aðrar hreyfingar í vatninu og það er oft það sem þarf til að setja í lax, sérstaklega fiska sem búið er að berja mikið á yfir sumarið og hafa séð þetta allt, SRS, Frances, Snældu, allan þann pakka. Ein lítil saga er frá síðasta sumri: Björgvin Krauni, leiðsögumaður við Laxá í Aðaldal, var staddur á haustdegi við Knútsstaðatún. Þar var pakkað af laxi en engin taka á þetta hefðbundna flugnasafn. Hann setti undir eina svona stóra klassíska, Black Doctor, og setti í og landaði stórum grútlegnum hæng. Það er því lógískt að hafa svona flugur til hliðar og nota þær ef annað er ekki að ganga upp.“