Komdu að veiða

Sigurður Héðinn, sem kallaður er Siggi Haugur af flestum vinum sínum, hefur skrifað sína fjórðu veiðibók á fimm árum. Komdu að veiða heitir hún, Drápa gefur út.

„Bókin hafði vinnuheitið Óskalistinn þar sem ég ákvað að fara með lesendur í mjög persónulegt ferðalag. Ég tek fyrir eftirlætisárnar mínar, ár sem allir ættu að fá tækifæri til að prófa á ferlinum. Síðan tek ég fyrir eftirlætisveiðistaði mína í þessum á. Þetta eru Norðurá, Stóra Laxá, Hafralónsá, Hofsá og Selá.. Þegar þessi efnistök lágu fyrir var hið eðlilega nafn bókarinnar Komdu að veiða. En þetta er annað og meira en bara lýsingar á hyljum, ég gauka þarna með veiðisögum, sendi sjókvíaeldinu tóninn og kynni nokkrar nýjar flugur,“ segir Siggi í samtali við VoV.

Fjórar bækur á fimm árum, er þetta þá komið gott, eða koma fleiri bækur? „Það verða fleiri bækur. Þegar maður er kominn svona á bragðið þá bara verður maður bara að skrifa. Þegar ein bók er komin út líður manni kannski eins og það sé ekkert eftir til að skrifa um. En það breytist fljótt ogég finn að ég hef endalaust efni sem mig langar að koma í bók og bækur.“

Það vekur athygli þegar bókinni er flett að umræddar lýsingar á veiðistöðum eru skreyttar vatnslitamyndum eftir Sigga sjálfan. „Já, það er hæfileiki sem uppgötvaðist í haust þegar ég prófaði að fikta við þetta. Ég ætla ekki að segja að þetta séu fullkomnar myndir, en þær henta vel vegna hversu persónulegt efnið er. Þá fer maður ekki að hafa upp á myndskreytara, ekki ef að maður getur unnið  verkið sjálfur. Mér finnst þetta skemmtilegan svip á bókina og ef satt skal segja finnst mér þessi bók vera sú besta frá mér til þessa,“ segir Siggi að lokum. En við þetta má bæta að ú er hægt að versla sér kombó, bókina góðu og glæsilegt fluguveski frá Reiðu Öndinni, í veskinu er að finna tíu eintök af ofurflugunni Haugurinn. Tíu eintök af ýmsum stærðum og gerðum. Haugurinn er þekktasta og gjöfulasta fluga sem Siggi hefur hannað og hnýtt.