Mikið hefur farið fyrir umræðu um risavaxna sjóbirtinga sem hafa orðið æ algengari með hverju árinu og má eflaust þakka veiða-sleppa fyrirkomulaginu fyrir það, því fiskar þessir verða afar gamlir og hrygna oft.
Tveir hafa nú þegar veiðst í vor 100 og 102 cm. Og slatti af 90cm-plús. Og margir, margir um og yfir 80cm. Svona fiskar duttu inn af og til í gegn um árin, en aldrei neitt í líkingu við það sem menn horfa nú upp á. Það var helst að Tungulækur lúrði á þeim í gamla daga, en sjaldnast stærri en svona 84-86cm. Þeir veiddust auðvitað víðar, t.d. í Geirlandsá og Tungufljóti, en flestir voru í Tungulæk, enda vel passað upp á hlutina þar á þeim árum.
En hvað með þessi tröll? Aldur og fyrri störf? Þessi umræða rifjaði upp viðtal sem VoV tók veturinn 2006 við Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðing og eiganda Laxfiska ehf. Viðtalið birtum við í tímaritinu sem við gáfum nokkrum sinnum út á prenti á þessum árum. Inntak þess voru athuganir Jóhannesar á stórum birtingum sem hann nældi í við klakveiðar í Tungulæk. Hann tók af þeim hreistur og fann út aldur og fjölda hrygningarferða. Þetta voru athyglisverðar tölur.

Grípum aðeins niður í viðtalið: „Í ljós kom að frænkurnar voru í meira lagi lífsreyndar. Önnur hrygnan var 80,3 cm löng og 12 ára gömul og hin var 14 ára og 86,3 cm. Báðar höfðu gengið sín síðustu 9 sumur í sjó í ætisleit. Þar fylgdu þær þeim almenna sið birtinga að ganga árlega til sjávar í kjölfar fyrstu sjógöngu. Heildarfjöldi sjóferða vinkvennanna sýnir einstaka hæfni þeirra sem sæfarenda í þeim darraðardansi sem einkennir ætisgöngur birtinganna með ströndum, svo sem vinahót soltinna sela vitna meðal annars um. Yngri hrygnan gekk í sjó í fyrsta skipti 3 ára gömul og í kjölfar fjórðu sjóferðarinnar, þá 6 ára, hrygnir hún í fyrsta sinn og árlega eftir það. Eldri hrygnan gekk ekki í sjó fyrr en 5 ára gömul og eftir þriðja sumar sitt í sjónum, þá 8 ára, hrygnir hún í fyrsta sinn og síðan árlega eftir það. Vegna þess að þyngd hrygnanna var ekki mæld þá má geta þess til samanburðar að vænta má þess að smærri hrygnan hafi verið 10-12 pund (5-6 kg) og sú stærri 14-16 pund (7-8 kg). Hér er við hæfi að geta þess að stærsta sjóbirtingshrygna sem veiðst hefur hérlendis svo vitað sé veiddist í Tungulæk fyrir fáeinum árum en sú var 100 cm löng og 23 pund að þyngd. Fróðlegt hefði verið að vita sögu þess ferlíkis.
Það var Haraldur Eiríksson (þáverandi markaðsfulltrúi SVFR og núverandi leigutaki Laxár í Kjós) sem veiddi fiskinn á Grey Ghost straumflugu og var nauðugur einn kostur að drepa ferlíkið því að flugan stóð ofan í koki og blæddi úr. Sú hrygna var veidd að vori og á niðurleið enn á ný og guð má vita hvað hún var búin að fara margar ferðir í ljósi þess hversu miklu stærri hún var heldur en þær tvær sem hér um ræðir.
Og þá að gömlu konunni sem var enn á ferð í haust. Jóhannes náði henni á Breiðunni nú í haust (mun að þetta var skrifað 2006). Orðin 15 ára gömul, 90 cm og búin að hrygna í áttunda skiptið! Menn hafa bent á mikilvægi þess að sleppa vænum sjóbirtingum til að þeir geti viðhaldið stofnum sínum. Hér er komin staðreynd sem veldur því að menn geta ekki gefið sér að óvenjulega stór sjóbirtingur hljóti að vera oorðinn svo gamall að hann sé kominn á grafarbakkann og þess vegna í lagi að slá hann af. Greinilegt er að þessi dýr eru bæði langlíf og lífseig.“
Svo mörg voru þau orð Jóhannesar. Og nú eru að veiðast á hverju ári, vor og haust fiskar á bilinu frá 90 cm og upp í um og yfir meterinn. Hvað skyldu þeir vera orðnir gamlir? Hversu oft búnir að hrygna og hversu þungir eru þeir að hausti?