Stórir regnbogar að veiðast í Minnivallalæk

Freyr Frostason með sílspikaðann regnboga úr Stöðvarhyl í Minnivallalæk.

 

„Jú, við opnuðum Minnivallalæk í gær og það hafa veiðst nokkrir fiskar. Það furðulega er að mest eru þetta rígvænir og fallegir regnbogasilungar. Við vitum ekkert hvaðan þeir koma, en það verður reynt að fara ofan í saumana á því,“ sagði Þröstur Elliðason leigutaki Minnivallalækjar í skeyti til VoV.

„Þetta er merkilegt og þessir regnbogar eru allt að 70 cm sem vekur furðu. Ekki er Fiskeldi Fellsmúla sem er stöð á árbakkanum með regnbogaeldi svo skýringar er ekki að leita þar hvort sloppið hafi fiskur þaðan. En verður áhugavert að fylgjast með hvernig þetta þróast svo inn í vorið en vonandi eru þetta bara fáir fiskar sem veiðast fljótlega upp,“ bætti Þröstur við.

Í frétt sem Þröstur setti á FB síðu Strengja, eru nokkrar athugasemdir lesenda og fyrst og fremst vangaveltur um það hver uppruni þessara fiska geti verið. Einn taldi þá vera úr einhverju landeldinu á Suðurlandi og þeir væru of feitir og pattaralegir til að hafa verið lengi í ánni þar eð svo stórir fiskar þurfi mikið að éta. Þeir séu því ekki löngu gengnir í ána. Annar benti á að ef stórt sleppislys hefði átt sér stað í einhverri eldisstöð þá myndu stórir regnbogar veiðast víðar á Suðurlandinu í framhaldinu.

Það er alls ekki nýtt af nálinni að kvíasloppnir regnbogar veiðist í ám hér á landi. Þekktasta regnbogaveiðin var í Varmá þar sem þeir veiddust um árabil. Allt að 10 punda fiskar. En uppruni þeirra var öllum kunnur, eldisstöð á árbakkanum við Stöðvarhyl var með regnbogaeldi og þaðan var fiskur ítrekar að sleppa. Ekki varð vart við hrygningu regnboga þar, en eitt sinn reyndu regnbogar hrygningu í smásprænu skammt frá Akranesi. Ekki gekk það upp.