Þorri með draumalaxinn, 100 cm og 22 pund úr Miðfjarðará.

Það skóflast inn stórlaxarnir þessa síðustu daga vertíðarinnar. Eins og venjulega má segja, en kemur kannski skemmtilega á óvart hevrsu lífleg stórlaxaveiðin hefur verið í ljósi þess hversu glötuð vertíðin hefur verið. En það sannast hið fornkveðna, jafnvel þegar sérlega illa árar, þá er haugur af veiðisögum. Hér er ein.

Veiðifréttamiðlar, VoV og aðrir hafa verið fullir af þessum fréttum að undanförnu og kannski hefur verið sérlega gaman að því að horfa uppá að í Víðidalsá hefur hver 104 cm laxinn af öðrum verið dreginn og svo kom einn svipaður úr Vatnsdalsá sem er nú yfirleitt aðeins fyrir ofan nágranna sinn. En Miðfjarðará er síðan alltaf líkleg og Þorrri Hringsson var nú í vikubyrjun að landa þar 100 cm hrygnu á fluguna Green Monkey. Enn eitt tröllið þetta haustið og þau eru orðin svo mörg að það nánast gleymist hvað vertíðin hefur verið glötuð. Laxinn var að sögn Þorra 22 pund, þannig að við gefum okkur að hann hafi komið honum á vog áður en honum var sleppt.